145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[13:19]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Nú greiðum við atkvæði um breytingartillögu frá 2. minni hluta atvinnuveganefndar um umhverfisáhrif af landbúnaði sem ég held að engum blandist hugur um að eru töluverð og eðlilegt að meta þau áhrif. Loftslagsáhrifin eru ekki síst mikilvæg sem og auðvitað vistspor, álag á landið og áhrif á landgæði og gróðurfar. Ég held að við séum öll sammála um það. Þarna eigum við tiltekna aðferðafræði sem er aðferðafræði umhverfismatsáætlana, sem er alveg örugglega gott verkfæri til að kanna þessi áhrif. Við leggjum því hér til að jafnhliða skipun samráðshópsins skuli ráðherra skipa starfshóp til að meta sérstaklega umhverfisáhrif búvörusamninga samkvæmt aðferðafræði umhverfismatsáætlana. Ég sé að á mönnum eru einhverjar vöflur með að styðja þetta mál og vil ég þá beina því til hv. atvinnuveganefndar að skoða þetta milli 2. og 3. umr., því að ég held að þetta séu sjónarmið sem við ættum öll að geta staðið með.