145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[13:21]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Ég vil lýsa því yfir fyrir hönd okkar í nefndinni að ég tel að þetta sé eitt af þeim atriðum sem við ættum að skoða á milli umræðna. Við komum reyndar mjög vel inn á þessa þætti í því yfirliti sem við leggjum fram varðandi þá miklu endurskoðun sem á að fara í gang núna og vera næstu þrjú árin, í það lengsta, henni má auðvitað ljúka fyrr ef menn ná sér saman fyrr. En þar komum við einmitt alveg sérstaklega inn á umhverfismálin og teljum mjög mikilvægt að íslenskur landbúnaður verði skoðaður með tilliti til þeirra. Ég held að kolefnisspor íslensks landbúnaðar geti orðið jákvætt í framtíðinni ef rétt er á málum haldið. Við skulum skoða hvort við getum ekki mætt einhverjum sjónarmiðum þarna og gengið jafnvel lengra en þegar hefur verið gengið í þeim tillögum sem fyrir liggja.