145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

stjórnarskipunarlög.

841. mál
[16:23]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta eru búnar að vera áhugaverðar umræður í dag um þetta mjög svo umdeilda mál sem hefur verið í farvegi ansi lengi. Það má fyrst velta fyrir sér hvernig málið er til komið inn í þingið þar sem hæstv. forsætisráðherra leggur það fram sem þingmannafrumvarp en ekki sem stjórnarfrumvarp. Það ýtir undir að það er ekki það samkomulag um efni þess sem ráðherra vildi vera láta í ræðu sinni og kemur fram í þessu frumvarpi. Þessar þverpólitísku hugmyndir stjórnarskrárnefndar sem hann segir að frumvarpið sé efnislega samhljóða eru í rauninni ekki raunveruleg niðurstaða. Tillögurnar sem settar voru fram af þeirra hálfu var í fyrsta lagi í þremur frumvörpum. Það hefði verið betra, að mínu mati, að það hefði komið inn með þeim hætti frekar en í einu máli. Það hefði líka verið auðveldara fyrir kjósendur að taka afstöðu til þeirra í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég held að þetta gefi til kynna að ráðherrann hafi hreinlega efasemdir um að málið klárist.

Eins og hefur verið rakið hefur verið átt við þetta mál til fjölda ára. Auðvitað jókst það eftir hrunið þar sem krafan var að stjórnarskránni yrði breytt og tilfinning margra er að skipulag þings og ákvarðanatöku þess og lagasetningar lagist ekki, ef svo má að orði komast, af hálfu þeirra sem telja að það sé í miklu ólagi, fyrr en ný stjórnarskrá taki gildi.

Það er líka áhugavert í því samhengi að velta fyrir sér hvernig þetta er til komið, eins og hér hefur verið talað um, þegar stjórnlagaráðið er sett á fót og svo þeir 25 einstaklingar sem enduðu í stjórnlagaráðinu sem tók við af stjórnlagaþinginu. Þeir sem höfðu áhuga á því að starfa í þessu gáfu kost á sér og það var mikið ójafnvægi, það voru á sjötta hundrað manns og þar af voru tæplega 400 karlar og 160 konur sem sýndu áhuga. Eins og við þekkjum voru einungis þrír fulltrúar af landsbyggðinni sem komust þar að. Það var aðallega fólk sem hafði verið þekkt á opinberum vettvangi. Það má kannski segja að ekkert sé við það að athuga, en þegar við hugsum um kynjaskiptinguna, 40% konur og 60% karlar, og því er svo haldið fram að þetta hafi verið þverskurður af þjóðinni — ég a.m.k. erfitt að segja að svo hafi verið. En það eru sjálfsagt skiptar skoðanir á því. Mér finnst ástæða til þess að við veltum því fyrir okkur í framhaldinu.

Hér hefur aðeins verið viðrað hvernig við sjáum framhaldið fyrir okkur. Rætt hefur verið um þá vinnu sem var mjög mikilvæg og unnin var á síðasta þingi. Það er held ég alveg klárt mál og mér þykir miður að þegar tímafresturinn til atkvæðagreiðslunnar sem hugur stefndi að að færi fram samhliða forsetakosningunum rann út þá datt svolítið botninn úr málinu. Það hefði átt að vera okkur áminning og eins og kom fram í máli hv. formanns Vinstri grænna hefði verið hægt að ljúka þessu máli af hálfu nefndarinnar mun fyrr ef fólk hefði almennt umboð og hefði haft raunverulegan áhuga á því að koma hlutunum frá sér. Það var rakið hversu margar breytingar voru á nefndarfólki og ýmislegt sem tafði vinnuna og annað slíkt sem þarf ekki að endurtaka.

Ég verð að taka undir það sem hefur komið fram þegar talað er um að þingið sé ófært um að afgreiða eitthvað. Ég get ekki fallist á að þingið sé ófært um það. Það er bara venjulegt fólk á þingi og hér hefur verið mikil endurnýjun. Það sem mér hefur þótt erfitt er að það eru alltaf tvö þing sem þurfa að samþykkja. Það á vissulega ekki að vera ofureinfalt að breyta stjórnarskránni en það á samt að vera hægt án þess að það taki óralangan tíma. Ég hugsaði með mér: Er það t.d. vilji eða ósk þjóðarinnar að við getum breytt stjórnarskránni einmitt án þingkosninga? Þurfa þær ekki að eiga sér stað á milli? Getum við búið um þetta með einhverjum öðrum hætti? Nú er komið að þeim tímapunkti þar sem við þurfum að hugsa hvernig við ætlum að ljúka þessu ferli. Að hverju ætlum við að stefna sameiginlega og hvert eigum við í rauninni að stefna og þróa lýðræðið okkar? Hvernig eigum við að búa um það? Ég held að við eigum að byggja á þeim tillögum og allri þeirri vinnu sem fram hefur komið. Ég held að skynsamlegt væri að skipa samt aftur einhvers konar verkefnisstjórn með aðkomu þingsins og háskólanna. Nú er ég að velta fyrir mér upphátt hvernig við gætum gert þetta af því að mér finnst það vera það sem fram undan er þótt að við getum haldið áfram að tala í þessum ræðustól um þessi mál.

Ég held að við þurfum að halda einhvers konar þjóðfundi og fara út í kjördæmin og eiga þar þjóðfundarsamtal við fólk og leita eftir sjónarmiðum til að draga inn í þessa vinnu aftur sem þessi verkefnisstjórn með aðkomu þingsins eða eitthvað slíkt mundi reyna að vinna. Við þurfum alla vega að draga þjóðina betur að þessu aftur áður en við svo setjum á endanum málið til þjóðarinnar. Það er mín skoðun að það eigi alltaf að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu að lokinni þeirri tillögu sem kemur frá þinginu. Ég held að við hljótum flest að vera sammála um það. Við getum gert þessa hluti öðruvísi en við höfum gert með þátttöku almennings og skrifað okkar samfélagssáttmála.

Ég verð líka að taka undir með forseta Íslands þegar hann var settur inn í embætti og sagði eitthvað í þá veru að málamiðlanir og áfangasigrar væru þess virði að við tækjum þá eða það væri þess virði að við mundum samþykkja einhverjar slíkar breytingar. Ég held að það sé eitt af því sem við þurfum að horfast í augu við. Í mínum huga þarf ekki að umbylta stjórnarskránni. Það eru hins vegar stórir og mikilvægir kaflar sem við þurfum að taka til gagngerrar endurskoðunar. Hér hafa verið rakin þjóðaratkvæðin og mannréttindin og auðlindirnar. Þetta er og verður ásteytingarsteinn vegna þess að það eru ólík sjónarmið, líka þótt við munum halda þjóðfundi, (Forseti hringir.) þá fengjum við ólíkar hugmyndir. En það er okkar að vinna úr þeim.