145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

stjórnarskipunarlög.

841. mál
[16:32]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem unnið hefur verið að í tæp þrjú ár. Ég er einn af þeim alþingismönnum sem unnu að því. Það hafa verið haldnir yfir 50 fundir og mikið rætt og spekúlerað og kastað á milli og togast á um. Ég get ekki tekið undir það sem einhverjir hv. þingmenn hér á undan mér hafa haldið fram, að þetta sé engin niðurstaða. Ég tel að það sem liggur hér fyrir, þrjár nýjar greinar sem við komumst að samkomulagi um, skipti töluvert miklu máli.

Það er í fyrsta lagi 79. gr. sem fjallar um náttúru Íslands og ábyrgð á vernd náttúru og rétti manna til heilnæms umhverfis, þetta er allt saman mjög mikilvægt í ljósi þess tíma sem við lifum á. Það skiptir máli að við verndum náttúru okkar til framtíðar fyrir ungar kynslóðir. Ég kem aftur að því.

Síðan er 80. gr. sem fjallar um auðlindir í náttúru Ísland og hvort þær eigi að tilheyra íslensku þjóðinni og hvernig við eigum að fara með þær náttúruauðlindir. Mér hefur fundist bera töluvert á því þegar rætt er um náttúruauðlindir landsins að menn horfi fyrst og fremst til fisksins sem syndir í sjónum. En náttúruauðlindir eru svo miklu meira en fiskurinn í sjónum. Það eru vatnsréttindi, hið hreina og heilnæma loft, nýting á gróðri jarðarinnar, sameiginleg nýting o.s.frv. Niðurstaðan í því sem við setjum hér fram er að að jafnaði skuli taka eðlilegt gjald fyrir heimildir til nýtingar náttúruauðlinda og landsréttinda. Það er nú þannig að ég býst við að þeir staldri við þetta sem sögðu á góðri íslensku, með leyfi forseta, „over my dead body“, ég borga aldrei fyrir að fá að fara um íslenska náttúru, en það er auðlind að fá að fara um landið okkar fallega og njóta þess.

Þriðja greinin, 81. gr., er ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég get alveg viðurkennt að meðal okkar sem stóðum í þessari vinnu voru mjög deildar meiningar um hlutfall þjóðarinnar sem gæti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég fyrir mitt leyti taldi að það ætti frekar að vera hærra en lægra. En niðurstaðan varð, þrátt fyrir mismunandi meiningar, að 15% þjóðarinnar gætu kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Hins vegar kemur fram í bókun fulltrúa okkar úr Sjálfstæðisflokknum að við teljum að megineinkenni stjórnskipunar okkar sé fulltrúalýðræði og þingræði. Það gangi þvert á þá þætti ef við erum með það opinn möguleika fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu að í raun og veru sé hægt að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu hvenær sem er um hvaða mál sem er.

Eitt og annað hefur verið rætt. Ég ætla ekki að fara að rekja neina sögu hérna en langaði samt að koma aðeins inn á náttúruverndina og umhverfisverndina. Eins og ég nefndi áðan hafa orðið miklar breytingar á viðhorfum manna til náttúru- og umhverfisverndar. Menn gera sér sífellt betur grein fyrir því að náttúran okkar er margslungið kerfi sem viðheldur lífi og tryggir þróun þess. Þess vegna er lögð æ ríkari áhersla á heildarhugsun og virðingu fyrir þessu samspili. Það er eitt af því sem okkur ber skylda til. Okkur ber skylda til að vernda náttúruna með tilliti til þess að komandi kynslóðir munu erfa landið og þær eiga svo sannarlega rétt á að þær geti búið hér og í okkar fallega heimi yfir höfuð.

Eitt af því sem kemur fram í umhverfisákvæðinu er að allir skuli njóta heilnæms umhverfis. Það er atriði sem menn hafa velt fyrir sér hvað þýði. Í skýringum með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Ákvæðinu um heilnæmi umhverfis er ekki ætlað að veita ríkari vernd en leiða má af grunnreglunni um réttinn til lífs og 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu, eins og þær verðar skýrðar með hliðsjón af alþjóðaskuldbindingum.“

Það er auðvitað svo að settar hafa verið ýmsar reglur sem miða að því að tryggja heilnæmt umhverfi, svo sem eins og lög á sviði mengunarvarna, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og um meðhöndlun úrgangs og reglur um vatnsvernd og skipulagsmál. Allt skiptir þetta miklu máli og er hluti af því að við verndum náttúruna okkar. Ég tel að það sé til mikilla bóta að fá fram svona ákvæði.

Mig langaði hins vegar aðeins til að koma inn á það sem fram hefur komið í umræðunni á undan. Ég sagði áðan að ég gæti ekki tekið undir að þessi vinna hefði verið til einskis. Svo sannarlega ekki. Það eru áfangasigrar í þessu eins og hv. þm. Árni Páll Árnason sagði. Ég ætla að leyfa mér að hæla honum fyrir margt af því sem kom fram hjá honum. Mér fannst hann ræða þetta skynsamlega og á mjög sanngjarnan hátt og vil þakka honum fyrir það. Nú er það svo að stjórnarskráin er grunnlög fyrir landið. Allar breytingar sem verða á stjórnarskrá hafa í för með sér að endurskoða þarf alla lagabálka sem tengjast henni. Það er náttúrlega töluvert mikil vinna ef við ætlum að bylta stjórnarskránni eins og hugmyndir hafa verið uppi um og voru á síðasta kjörtímabili. Hér hafa verið höfð orð um að það hafi átt sér stað gamaldags stjórnmál við vinnu við breytingar á stjórnarskrá og verið vísað í stjórnlagaráð, að það hafi náð árangri. Það er alveg hárrétt að það náðist margt gott á síðasta kjörtímabili með tillögum stjórnlagaráðs. En það var alls ekkert allt gott þar.

Stundum er talað um að þjóðin hafi viljað, þjóðin hafi samþykkt ákveðnar breytingar, eða þjóðin hafi samþykkt stjórnarskrárbreytingar í þjóðaratkvæðagreiðslu á síðasta kjörtímabili. Ég fór aðeins að skoða þetta því að ég tók þátt í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu og þegar maður fer ofan í þær sex spurningar sem voru lagðar fyrir þjóðina á þeim tíma, 20. október 2012, er fyrsta spurningin þessi: „Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?“ Það voru 48% atkvæðisbærra manna á landinu sem tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni eða undir helmingur þjóðarinnar. Það voru 64% af þessum 48% sem sögðu já við þessari spurningu. Það þýðir að tæplega 31% þjóðarinnar samþykkja á þeim tíma að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar að nýrri stjórnarskrá. Mér finnst mjög hæpið að tala þá um að þjóðin vilji, eins og það sé 100% þjóðarinnar eða 80% þjóðarinnar. Það er ekki ásættanleg þátttaka í svona mikilvægum kosningum að mínu mati, innan við 50%. Það eru innan við 31% sem segja já við þessari spurningu.

Mér finnst ágætt að draga þetta fram því að eitt af því sem hefur verið haldið fram er að Þjóðin, með stórum staf, hafi viljað þetta. Þjóðin vildi þetta. Ef tæpt 31% er Þjóðin, með stórum staf, erum við svo sannarlega komin með minnihlutalýðræði. Það er kannski ekki það sem fólk horfir til.

Ég vil líka taka undir það sem hefur komið fram þegar hefur verið sagt að Alþingi ráði ekki við þetta verkefni, og menn hafa svo sannarlega misjafnar skoðanir á Alþingi, en ég tek undir það sem hv. þm. Birgir Ármannsson sagði áðan: Þegar menn segja svona eru þeir kannski að tala um að Alþingi hafi ekki samþykkt nákvæmlega það sem viðkomandi hv. þingmaður vildi að gerðist.

Ég er hins vegar afskaplega ánægð með að þetta frumvarp komi hér fram. Mér finnst það vera áfangasigur fyrir okkur. Ég vil á þessum tímapunkti þakka þingmönnum og fulltrúum frá Framsóknarflokknum sem ekki voru þingmenn sem unnu með okkur þessa vinnu. Hún tók vissulega langan tíma og vissulega var velt við ýmsum steinum en ég tel að það sé líka nauðsynlegt. Það getur enginn einn fengið fram allt sitt. Við þurfum öll að bakka að einhverju leyti.