145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

stjórnarskipunarlög.

841. mál
[17:28]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Það er grundvallaratriði sem hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sagði í lokin að vanda þarf vel til verka þegar samin eru ákvæði sem eiga að fara í stjórnarskrá Íslands. Um það hefur þetta mál reyndar snúist í mjög langan tíma og það hefur verið skoðun okkar sjálfstæðismanna og kemur víst ekki á óvart að í fyrsta lagi sé helber óþarfi að fara í umbyltingar á stjórnarskránni og í öðru lagi þurfi breytingar á henni þegar þær eru gerðar að vinnast mjög vandlega. Það er gott og málinu til framdráttar ef þær fá tækifæri til að malla og taka tíma.

Hér í dag höfum við verið að ræða frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem hæstv. forsætisráðherra lagði fram og er afrakstur nefndarvinnu sem hefur átt sér stað allt þetta kjörtímabil. Umræðan í dag hefur verið á margan hátt ljómandi góð. Menn hafa farið út um víðan völl um efni máls en ekki síst rætt það hvaða aðferðir séu bestar til þess að breyta ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Sá ágreiningur sem hér hefur birst snýst kannski númer eitt, tvö og þrjú um þetta: Er þörf á því, þarf að fara í róttækar breytingar á stjórnarskránni? Hvað er það sem kallar á slíkar breytingar? Og hitt: Hvernig á að halda á breytingum á stjórnarskrá? Hér hefur verið fjallað töluvert um þær tillögur sem voru til umfjöllunar á síðasta kjörtímabili og áttu rót að rekja til stjórnlagaráðs. Jafnframt hafa nokkrir þingmenn sagt að Alþingi Íslendinga hafi reynst ófært um að gera breytingar á stjórnarskrá. Ég get aldrei fallist á það sjónarmið. Ég held þvert á móti að þessi grundvallarskylda Alþingis Íslendinga að fara með stjórnarskipunarlögin sé skylda sem Alþingi eigi ekki að gefa frá sér. Ég held að það væri lítill bragur á því og fyndist lítill bragur á löggjafarsamkundunni sjálfri ef hún kæmist að þeirri niðurstöðu að hún ætti að taka við tillögum og afgreiða þær án þess að hafa á þeim sjálfstæðar skoðanir, hvað þá að hún hefði forræði um að slík vinna væri unnin.

Að þessu leyti hygg ég að milli minna sjónarmiða og míns flokks og sumra annarra hér sé býsna langt og jafnvel ófært að ná samkomulagi ef menn ætla að halda sér við að það verði eingöngu á grundvelli hugmynda þar sem sérstakt apparat verði sett á laggirnar eða kosið sérstaklega til og Alþingi, löggjafarsamkundan, tekið úr sambandi með þeim hætti.

Hitt er svo annað að það er fjarri sanni, og ég hygg að þingheimur viti það, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki viljað breyta neinu. Allt síðasta kjörtímabil var mikill ágreiningur um stjórnskipunina og það voru svo sannarlega mikil átök og raunar eiga þau átök sem við höfum verið að eiga við undanfarin nokkuð mörg ár eiga auðvitað rót að rekja til vormánuðanna 2009 þegar í aðdraganda kosninga átti að umbylta öllu stjórnkerfi og úr því varð hávær og mikil orrusta sem við gátum sem betur fer stöðvað, við sjálfstæðismenn, og erum stolt af því. Það þýðir ekki að við höfum ekki verið tilbúin til að gera tilteknar breytingar. Það er þess vegna sem Sjálfstæðisflokkurinn í þessu ríkisstjórnarsamstarfi tók þátt af heilum hug í því nefndarstarfi sem hér er til umfjöllunar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í stjórnskipunarnefnd hafa setið þar, sömu fulltrúar allt þetta kjörtímabil og setið þá 50 fundi sem mönnum er tíðrætt um. Mér þykir það reyndar mjög gagnlegt að menn hafi haldið langa og marga fundi til þess að ræða þetta mál því að til þess er nú leikurinn gerður, að leggja sig fram og koma síðan með afrakstur.

Ég held að þau atriði sem mesti styrinn hefur verið um, og nú getum við hvert og eitt haft dálítið mismunandi skoðanir á því, hafi einmitt verið þau þrjú atriði sem eru til umræðu í þessu frumvarpi. Þetta eru þau atriði sem á margan hátt var mesta ákall um og þau erum við að ræða hér. Þess vegna kemur það mér mikið á óvart að núna skuli það allt í einu koma upp að það sé alveg ófært að einungis þrjár greinar séu undir í þessari vinnu. Mér þykir það mjög sérkennileg niðurstaða. Ég hefði miklu frekar haldið að afstaða manna ætti að litast af því að hér er áfanga náð. Hér er lagt inn á þingið plagg sem hefur fengið töluvert mikla rýni. Hér er um að ræða mál sem hefur þroskast. Hér sjáum við t.d. eitt ákvæði, auðlindaákvæðið, sem hefur í gegnum tíðina verið í nokkrum myndum og hér er ein útfærsla af því sem ég býst við að margir fleiri geti sætt sig við en það sem við höfum gert fram til þessa.

Frumvarpið felur í sér málamiðlanir. Er gott að það séu málamiðlanir þegar kemur að stjórnarskrármálum? Já, ég tel svo vera. Ég tel að jafnvel þótt það taki langan tíma þá sé mjög mikið til þess vinnandi að þeir stjórnmálaflokkar sem sitja á Alþingi geti sest yfir stjórnarskipunarlögin og komist að niðurstöðu um hvernig eigi að halda á hlutunum hægt og rólega.

Hér er t.d. ekki til umfjöllunar eitt ákvæði í núgildandi stjórnarskrá sem við mörg hver höfum haft mjög mikinn áhuga á að yrði breytt, það er 26. gr. stjórnarskrárinnar. Við sjálfstæðismenn höfum um langa hríð talið að það sé það ákvæði stjórnarskrárinnar sem þurfi nauðsynlega að endurskoða. Það var ákveðið þegar þessi vinna fór af stað að einbeita sér að þeim þáttum sem hér eru undir, kannski síðar skyldu menn líta til annarra þátta, var sagt, en það náðist ekki samkomulag um að fara í 26. gr. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fóru ekkert frá borðinu við það heldur héldu þeir áfram að vinna í nefndinni að þeim tillögum sem eru til grundvallar í þessari umræðu í dag.

Ég get haft ýmsar skoðanir á einstökum greinum í frumvarpinu. Það eru atriði hér sem ég mundi gjarnan vilja hafa með öðrum hætti. Það á ekki síst við um ákvæðið um þjóðaratkvæðagreiðslur, þröskulda, synjunarþröskulda og slíka hluti, samspil þjóðaratkvæðagreiðslna og síðan hlutverk Alþingis o.s.frv. Hins vegar tel ég æskilegt að frumvarpið fari til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, fái þar umfjöllun og umræðu og þar munu væntanlega koma fram sjónarmið einstakra þingmanna til þessara mála. Ef það er þannig að í hvert skipti sem stjórnarskrárumræða fer af stað hér á þingi þá hefjist umræðan nánast á því að menn skipi sér algjörlega í tvö horn og séu ekki reiðubúnir til þess að ná neinni niðurstöðu þá komast menn auðvitað hvergi áfram. En ég held að það hafi alls ekkert verið andinn í þessari vinnu í nefndinni.

Framhald málsins er að sjálfsögðu mjög óljóst. Það er alveg vitað að einstakir flokkar og einstakir fulltrúar flokkanna sem standa að þessari nefnd eru með athugasemdir og sjónarmið í kringum málið því að sitt sýnist hverjum og kannski af því að á lokasprettinum heltust úr lestinni flokkar sem skyndilega vildu nánast allt eða ekkert, sem er auðvitað sjónarmið sem er með engum hætti hægt að fallast á í þessari vinnu hér.

Það er ágætistónn í þessu og mér finnst ágætt að geta öðru hvoru hafið hér einhverjar skynsamlegar umræður um stjórnarskrármál. Mér finnst samt á umræðunni að það vanti töluvert upp á það að við munum á næstunni ná einhverju samkomulagi ef menn halda sig við að það sé grundvallaratriði að það sé ávallt á forsendum stjórnlagaráðs eða utanaðkomandi aðila. Ég ítreka það sjónarmið sem ég vék að í upphafi að ég held að það yrði nánast niðurlægjandi fyrir Alþingi Íslendinga ef menn ætluðu að fallast á að Alþingi hefði ekki tök á því og gæti ekki valdið því verkefni sem þetta er, sem ég tel að sé ein af grundvallarskyldum þingsins. Fyrir utan það er náttúrlega ekki hægt að halda því fram að Alþingi hafi aldrei gert neinar breytingar á stjórnarskránni. Það er ekki hægt að hlusta á það hér slag í slag að Alþingi hafi heykst við og ekki getað klárað sig, það er bara alls ekki rétt. Á lýðveldistímanum hefur stjórnarskránni verið breytt alloft og á köflum verulega. 1995 voru gerðar verulegar breytingar á stjórnarskránni. Það er látið eins og það hafi ekki verið neitt neitt. Ég vil líka segja það: Halda menn að þær breytingar hafi orðið til af engu? Halda menn að það hafi bara gerst einn, tveir og þrír? Þetta þarf að gerast af ígrunduðu máli.

Aðalatriðið er þetta: Það þarf ekkert að breyta því sem er í lagi. Menn verða að horfast í augu við þá kosti sem íslenska stjórnarskráin hefur svo sannarlega haft. Það er fullkomlega óskiljanlegt að menn hafi ákveðið að setja á dagskrá breytingar á stjórnarskrá eftir fall bankanna og látið að því liggja að það hafi eitthvað verið að stjórnarskránni sem olli bankahruni. Það er fjarstæðukennt. Þvert á móti varð stjórnarskráin það skjól sem við þurftum einmitt í eftirköstum hrunsins, ef við getum orðað það þannig. Þar veitti hún okkur skjól sem reyndist gríðarlega mikilvægt. Mér finnst furðulegt að hér séu þingmenn sem haldi því fram að svo hafi ekki verið og það eigi þá með óskilgreindum hætti að skrifa stjórnarskrá á mannamáli sem helst á ekki að útskýra með neinum hætti og haldi að þannig gætum við betur að hagsmunum Íslands. Það er alrangt.