145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

eðli og tilgangur þjóðaratkvæðagreiðslna.

[18:02]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir frumkvæðið að þessari umræðu. Hér er um að ræða alveg gríðarlega aðkallandi umræðuefni. Ég tek undir með fyrirspyrjanda í því efni að við þurfum að gæta að því að þjóðaratkvæðagreiðslur eru rétt eins og annað það sem lýtur að því að ná markmiðum lýðræðisins verkfæri en ekki markmið í sjálfu sér. Þess vegna er brýnt að halda stóra markmiðinu alltaf til haga, að það hlýtur að vera okkar meginmarkmið — og það er mikilvægt fyrir okkur sem erum hér handhafar fulltrúalýðræðisins — að hafa það markmið að leiðarljósi alla daga að styrkja lýðræðið og vera meðvituð um að allt vald kemur frá þjóðinni, beint eða óbeint. Það gerir það líka gagnvart fulltrúalýðræðinu.

Hér hefur verið vikið að nokkrum afar mikilvægum þáttum. Í fyrsta lagi það sem lýtur að frumkvæðinu að þjóðaratkvæðagreiðslum. Hvaðan á krafturinn að koma til að gera kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslur? Það er auðvitað eitthvað sem hefur verið rætt árum og áratugum saman. Að þjóðin sjálf eigi að geta kallað eftir slíku. Og jafnvel minni hluti þingsins. Það er eitthvað sem hefur verið unnið að núna í tillögum um breytingar á stjórnarskránni. Í öðru lagi vil ég nefna mikilvægi þess að það séu skýrir kostir fyrir hendi. Hv. þingmaður, málshefjandi, vék að því líka hversu mikilvægt það er. En ég vil líka segja: Ef við erum að tala um að styrkja lýðræðið yfir höfuð yrðum við að gæta að því að styrkja fulltrúalýðræðið líka. Hér erum við með ákveðna og skilgreinda brotalöm á fulltrúalýðræðinu sem er ójafnvægi í atkvæðisrétti milli landshluta, sem skiptir máli að laga. Það skiptir líka máli að gæta að jafnrétti til náms því að menntun er líka grundvallaratriði í sterku lýðræðissamfélagi og ekki síður sterkir fjölmiðlar og sterkt Alþingi (Forseti hringir.) gagnvart framkvæmdarvaldinu. Allir þessir þættir eiga að vera jafnstæðir þegar við erum að tala um að styrkja lýðræðið.