145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

eðli og tilgangur þjóðaratkvæðagreiðslna.

[18:09]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Það kom fram hjá málshefjanda að hún væri sprottin vegna tillögu til þingsályktunar um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni. Það má segja, vegna þess að málshefjandi tekur þetta atriði sérstaklega til, að sú tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu sé kannski í framhaldi af tvennu. Hún er í framhaldi af því að það er alls ekki ljóst að gerningur sem var framkvæmdur hér árið 2013 standist lög. Það hafa fremstu lögspekingar komið fram með. Hún er líka sett fram vegna þess að fram fór skoðanakönnun þar sem 70 þúsund manns yfirlýstu þann vilja sinn að flugvöllurinn yrði áfram í Vatnsmýrinni og það var ekkert gert með álit þessara 70 þúsunda. Það skýtur skökku við, finnst mér, þegar Pírata stíga á stokk, talsmenn þjóðaratkvæðagreiðslna, (Gripið fram í.)og finna að því — og hér heyrist í heilagri kú Pírataflokksins, (Gripið fram í.) hv. þm. Birgittu Jónsdóttur. Ég bið um (Gripið fram í.) að ég verði ekki truflaður, frú forseti, við það sem ég er að segja því að ég hef orðið. (Gripið fram í.) Frú forseti, ég verð að biðja (BirgJ: Skárra að vera heilög kýr.) um meiri tíma því að það heyrist ekki mannsins mál fyrir þessum hv. þingmanni (Forseti hringir.) (BirgJ: Ótrúlegur dónaskapur.)

(Forseti (BjÓ): Forseti vill biðja hv. þingmenn að vera ekki með samtal. Hv. 10. þm. Suðvest. er með orðið.)

Takk fyrir, frú forseti. Það er auðvitað mikilvægt bæði hvaðan krafan um þjóðaratkvæði kemur og að spurningarnar sem lagðar séu fyrir séu algerlega kýrskýrar. Í skoðanakönnunum sem haldnar hafa verið, ekki kannski þjóðaratkvæðagreiðslum, hefur oft vantað upp á þennan skýrleika. Þess vegna er spurningin sem er sett fram í þessari tilgreindu tillögu til þingsályktunar algerlega skýr. (Forseti hringir.) Ég ítreka ósk mína um það, frú forseti, að ég fái að vinna upp þann tíma sem fór í truflunina. (Forseti hringir.) Ég verð samt að segja að við þann málatilbúnað sem hér er hafður uppi (Forseti hringir.) leitar hugur minn í gamla Stuðmannatextann (Forseti hringir.) þar sem segir: „Bara ef það hentar mér.“