145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

eðli og tilgangur þjóðaratkvæðagreiðslna.

[18:15]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Flestir eða allir stjórnmálaflokkar hafa, í það minnsta í orði, haft þá afstöðu að æskilegt væri að auka vægi þjóðaratkvæðagreiðslna og að þannig megi efla lýðræðið. Mér finnst þó mikilvægt að muna að þjóðaratkvæðagreiðslur eru tæki en ekki markmið og tek þar undir með hv. málshefjanda.

Til þess að þetta tæki stuðli að lýðræði eða leiði okkur að niðurstöðu í deilumálum skiptir máli hvernig því er beitt. Stjórnvöld víða um lönd hafa þannig tilhneigingu til að nota þjóðaratkvæðagreiðslur ekki til að leita svara heldur til að fá fram þá niðurstöðu sem þau vilja í pólitísku skyni. Þess vegna skiptir öllu máli hver fær að setja fram spurninguna og ráða orðalagi hennar. Til að þjóðaratkvæðagreiðslur virki sem lýðræðislegt afl verða allir aðilar að vera sáttir við orðalagið, annars verður bara rifist um hvað niðurstaðan merki í raun. Um það þekkjum við mörg dæmi bæði hér heima og erlendis.

Hér á landi hefur mest verið rætt um þjóðaratkvæðagreiðslur út frá rétti manna til að synja lögum frá Alþingi. En þar með er bara verið að bregðast við ákvörðunum löggjafans í stað þess að almenningur geti komið málum á dagskrá. Fyrirmynd að því kerfi má finna í Sviss en þar höfum við séð atkvæðagreiðslur sem ætlað er að vekja umræður, svo sem nýlega kosningu um borgaralaun, en einnig atkvæðagreiðslur sem sprottnar eru af útlendingaandúð. Aðferðin er því hvorki góð né vond í sjálfri sér, hún er fyrst og fremst tæki.