145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

um fundarstjórn.

[18:23]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar að taka undir með hv. þingmanni Helga Hrafni Gunnarssyni. Þetta er eitt af þeim umræðuformum á Alþingi sem mér finnst hvað skemmtilegast vegna þess að hér taka allir þátt, umræðunni er yfirleitt komið á með tiltölulega skömmum fyrirvara þannig að það er oft hægt að bregðast vel við dægurmálum og hér verður miklu meira samtal en nokkurn tíma getur orðið í dagskrárliðnum um störf þingsins þar sem eru meiri mónólógar frá þingmönnum og minna um viðbrögð.

Mig langar því að beina því til frú forseta að koma því áleiðis til forsætisnefndar að þetta sé eitthvað sem eigi að hafa í huga og mögulega endurskoða þingsköp Alþingis því að ég held að þetta sé umræðuliður sem megi svo sannarlega við því að verða lengri.