145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[18:51]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að halda aðeins áfram með það sem hv. þingmenn hættu í umræðunni um sýkingar og sóttvarnir og hættuna sem þessu getur fylgt. Það kom fram í andsvari hv. þm. Silju Daggar Gunnarsdóttur að lykilatriði sé gott eftirlit. Eins og kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans þá er það þannig víða í Evrópusambandslöndum að sýkingar eru algengari og sýklalyfjanotkun í landbúnaði meiri og tíðni baktería sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum hærri. Ég er í sjálfu sér alveg sammála því að gott eftirlit sé lykilatriði þó svo ég sé ósammála því hvað eigi að flytja inn vörur í miklum mæli. En þá kom það fram fyrir nefndinni að það skorti fjármuni til þess hreinlega að taka sýnin. Það hafa ekki verið tryggðir þeir fjármunir sem til þarf til þess að hægt sé að sinna þessu eftirliti. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi engar áhyggjur af því ef þessi samningur verður samþykktur en ekki búið að tryggja fjármagn til þess að hægt sé að sinna eftirliti.