145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[19:39]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir framsögu hennar. Hún mælti fyrir áliti minni hluta hv. utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu samnings Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur. Mér fannst ræðan um margt mjög athyglisverð. Nú á ég ekki sæti í hv. utanríkismálanefnd né heldur hv. atvinnuveganefnd.

Í fyrra andsvari vil ég koma inn á það sem hv. þingmaður byrjaði ræðu sína varðandi verslunar- og viðskiptahagsmuni sem eru undir. Það er auðvitað mjög skýrt og kom skýrt fram í ræðu hv. þingmanns að sér í lagi þegar kemur að loftslagsmálum og umhverfislegum áhrifum og svo hollustuháttum með lýðheilsulegum atriðum, þá metur hv. þingmaður það svo að ekki sé hægt að styðja málið.

Ég ætla í fyrra andsvari að spyrja hv. þingmann: Ef við gefum okkur það að við hlutleysum þessa tvo þætti og einblínum á viðskiptahlið samningsins — af því það er einu sinni svo að tollar skekkja hagkvæmni utanríkisviðskipta þannig að efnahagslegur ávinningur af niðurfellingu slíkra tolla er óvefengjanlegur — ef við hlutleysum áhrif loftslags- og umhverfismála, hollustuhátta og lýðheilsu, hver er þá almenn afstaða hv. þingmanns til tolla sem fjáröflunartækis (Forseti hringir.) og metur hv. þingmaður það að hún sé óvefengjanleg viðskiptahlið þessa samnings?