145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[19:43]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég skal viðurkenna það hér í fyrra andsvari að ég leyfði mér að vera með eins konar fræðilega nálgun á málið til þess að leiða mig inn í seinna andsvar sem snýr að þessum tveimur þáttum. Ég get verið sammála hv. þingmanni að það er auðvitað ekki hægt að hlutleysa þessa tvo stórvægilegu þætti í þessu máli, sem eru loftslags- og umhverfismál og svo hollustuhættir og lýðheilsa. Ég hjó eftir því í dag og kom fram í ræðu hv. þingmanns að hv. þm. Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, tók vel í að skoða breytingartillögu sem sneri að því að skerpa á atriðum í búvörusamningi sem hníga að markmiðum um minni losun gróðurhúsalofttegunda. Það er jafn eðlilegt að það sé skoðað í viðlíka tollasamningi. Hitt er að ég deili áhyggjum með hv. þingmanni þegar kemur að sýklalyfjanotkun og er einarður stuðningsmaður hollrar innlendrar framleiðslu og matvælaöryggis.

Ég ætla að spyrja í seinna andsvari, það kom kannski fram í úrvinnslu nefndarinnar á málinu, hvernig sú nálgun yrði og hvaða aðferðum yrði beitt til að kanna þessi áhrif, umhverfislegu áhrifin, í svona samningi á milli Evrópusambandsins og Íslands. Svo þegar snýr að innfluttri vöru og sýkingarhættu, hvernig (Forseti hringir.) aðferðum væri hægt að beita til að koma í veg fyrir það að við værum að flytja inn kjöt sem væri sýktara en við erum að framleiða innan lands?