145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[19:46]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Fyrir nefndinni kom fram að það vantaði hreinlega fjármagn nú þegar til að taka sýni úr vörum sem við erum að flytja inn. Það er kannski ein röksemdin sem ég vil færa fram fyrir því að ég tel ekki tímabært að staðfesta þennan samning, að það fjármagn til að mynda sem þarf til að hægt sé að fara í þessa sýnatöku er hvergi tryggt. Það er ekki í fjármálaáætlunum og ekki hefur verið gert ráð fyrir því í fjárhagsáætlunargerð. Það er auðvitað eitt atriði af fjölmörgum sem ég tel hlaðast upp í því af hverju við eigum að fara okkur hægt og fresta því að skrifa undir þennan samning. — Ef hv. þingmaður mundi hvísla að mér hvað var fyrra … (WÞÞ: Það sneri að umhverfis- og loftslagsmálum.) já, hvernig væri hægt að meta þau.

Fram kom fyrir nefndinni að það væri ekkert alveg einfalt mál að gera það, en hins vegar var bent á það, eins og ég fór yfir í ræðu minni, að vistsporið af flutningum matvæla skipti einhverju máli, (Forseti hringir.) en enn meira máli skipti hvernig matvælin væru framleidd. Við getum kannski ekki alveg (Forseti hringir.) skipað Evrópusambandinu fyrir hvað það eigi að gera í þessum efnum, en við getum þó (Forseti hringir.) í það minnsta reiknað út okkar vistspor í þessu efni. (Forseti hringir.) Þess vegna fagna ég því sem við ákveðum hér í dag, að fara að greina þetta á Íslandi.