145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

frumvarp um þunna eiginfjármögnun.

[15:10]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um atriði sem tengjast sama máli. Ég held að það liggi auðvitað fyrir að ef við settum reglur um þunna eiginfjármögnun nú, eins og tillögur hafa raunar legið fyrir um í þinginu frá þingmönnum Vinstri grænna allt frá árinu 2013, þyrfti að meta áhrifin. Þær tillögur byggðu á niðurstöðum starfshóps sem skilaði af sér 2012. Því máli var vísað til ríkisstjórnarinnar í mars 2014. Í mars 2016 þegar ekkert bólaði á tillögum ákvað ég að leggja þetta frumvarp fram aftur, endurskoðað út frá þeim umsögnum sem höfðu borist. Málið er núna í efnahags- og viðskiptanefnd og hefur fengið þar jákvæðar umsagnir. Þá fáum við tillögur, það er vel, frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu sem hluta af nýju frumvarpi um aðgerðir gegn skattsniðgöngu. Það liggur hins vegar fyrir að það á eftir að greina hvaða áhrif slíkar reglur mundu hafa á fjárfestingarsamningana sem hv. þm. Oddný Harðardóttir vísaði til áðan. Það eru líka ýmsar aðrar glufur ef vilji er fyrir hendi til að koma slíkum arði úr landi. Það er mikilvægt að meta áhrifin.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um það sem var nefnt áðan: Raforkuskatturinn sem var settur á er kannski ein aðferð til að þau ágætu fyrirtæki sem nýta hér auðlindir og hafa fengið sérstakar ívilnanir í fjárfestingarsamningum borgi sanngjarnt gjald af auðlindinni, en raforkuskatturinn var svo afnuminn: Hafa tillögur ráðuneytisins verið metnar út frá því hvort þær muni hafa áhrif á þessa fjárfestingarsamninga? Munu þær hafa þau áhrif að taka þurfi þá upp með einhverjum hætti eða er þetta eitthvað sem er ómetið?

Síðan langar mig að spyrja í ljósi þess að ég var með fyrirspurn um arðgreiðslur þessara fyrirtækja, vaxtagreiðslur og skattgreiðslur, sem fjármála- og efnahagsráðuneytið gat ekki svarað af eðlilegum ástæðum: Eitt fyrirtækjanna (Forseti hringir.) ... birti síðan allar þær upplýsingar í kjölfarið að eigin frumkvæði. (Forseti hringir.) Þurfa slíkar upplýsingar ekki að liggja fyrir, hæstv. forseti, til að við getum tekið raunverulega afstöðu til málsins?