145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

frumvarp um þunna eiginfjármögnun.

[15:15]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ástæða þess að álfyrirtækin eru sérstaklega til umræðu hér er auðvitað sú að það yrðu kannski þau fyrirtæki sem helst mundu falla undir slíkar reglur, þ.e. þau eru alþjóðleg stórfyrirtæki hér á landi með móðurfélög í öðrum löndum þaðan sem lánveitingar koma og vaxtagreiðslur fara. Auðvitað er eðlilegt að þessi fyrirtæki séu nefnd í þessu samhengi, herra forseti.

Hæstv. ráðherra talar fyrir almennum reglum. Gott og vel. Ég er algerlega sammála því. Þess vegna hef ég lagt fram frumvarp og þess vegna samþykkti efnahags- og viðskiptanefnd að vísa því til ríkisstjórnar og biðja hana um að útfæra það frekar. Það hefur tekið langan tíma að fá frekari útfærslu á því. Ég hefði viljað fá það miklu fyrr. Hins vegar er líka eðlilegt að við fáum eitthvert mat á því — og hæstv. ráðherra vitnar í að gögnin þurfi að liggja fyrir — hvaða áhrif þetta kann að hafa á þau fyrirtæki sem eru hér til staðar, hvaða áhrif það kann að hafa á þá samninga sem hafa verið gerðir. Það er ekki óeðlileg spurning, sérstaklega í ljósi þess að það hefur verið mjög misauðvelt, skulum við segja, að fá þessi gögn frá fyrirtækjunum eins og ég kom að í fyrri spurningu. Það er því ekki óeðlilegt að óska eftir mati á því hvað þetta muni þýða (Forseti hringir.) og líka hvað það hefur þýtt fyrir ríkissjóð að vera ekki búinn að innleiða reglur um þunna eiginfjármögnun (Forseti hringir.) sem hafa gengið í gildi í öllum nágrannalöndum okkar á undanförnum fimm, sex árum.