145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

veiðigjöld og fjármögnun rannsókna í sjávarútvegi.

[15:34]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla fyrst að segja að það þekkja það allir sem eitthvað fylgdust með á þeim tíma að sú fjárfestingaráætlun sem hér var nefnd var vitanlega ekkert nema kápan eða umbúðirnar einar. Það var ekki búið að fjármagna hana að neinu leyti og þetta var einhver óskalisti sem fyrri ríkisstjórn setti fram. (Gripið fram í.) Jú, þetta er alveg hárrétt. Síðan vil ég segja, því að hér er talað um að einn atvinnuvegur eigi að fjármagna innviði landsins, að það er náttúrlega ekki boðlegt að ætlast til þess að einn atvinnuvegur eigi að fjármagna innviði, samgöngur eða eitthvað slíkt. Við hljótum þá að spyrja í rauninni hvert annað: Viljum við að eingöngu þessi atvinnugrein sem nýtir auðlindir landsins borgi auðlindagjald eða viljum við að allar atvinnugreinar sem nýta auðlindir landsins með einhverju hætti greiði gjald fyrir það? Hóflegt gjald, ætla ég þá að leyfa mér að segja, sem dregur ekki úr mætti viðkomandi atvinnugreinar til þess að fjárfesta.

Ég væri til í að ræða þau mál, hvort við eigum ekki að hafa það þannig að þær atvinnugreinar sem nýta auðlindirnar greiði fyrir einhvers konar hóflegt gjald. Það má aldrei vera þannig að það dragi úr fjárfestingum. Það verður líka að vera þannig ef innheimt er slíkt gjald — og nú ætla ég að tala eins og við framsóknarmenn höfum ályktað um — að hluti af því renni til rannsókna, renni til byggðamála þess vegna eða til byggðanna aftur og hluti í ríkissjóð. Það hefur ekki verið reglan fram að þessu. Þetta er hins vegar eitthvað sem við í Framsóknarflokknum höfum lýst yfir og höfum mikinn áhuga á að sjá gerast í framtíðinni.

Mun það duga til að fara í alla þá innviðauppbyggingu sem hv. þingmaður virðist vera að tala um? Nei, örugglega ekki. Þá höldum við að sjálfsögðu áfram að fjármagna aðra innviðauppbyggingu úr ríkissjóði eins og gert hefur verið. Gleymum því ekki að hvort sem um er að ræða sjávarútvegsfyrirtæki eða einhver önnur þá greiða þau sjálfsagt til ríkissjóðs háa skatta og gjöld af starfsemi sinni önnur en þau gjöld sem hér rætt er um.

Ég er mjög upptekinn af því að við horfum ekki eingöngu á sjávarútveginn þegar við ræðum þessi afnotagjöld eða hvað við köllum þau, heldur verðum við að horfa á stóru myndina. Og enn og aftur, þau auðlindagjöld sem hér er um rætt og hv. þingmaður hefur talað fyrir í mörg, mörg ár er bara landsbyggðarskattur. (Forseti hringir.) Hér er landsbyggðarþingmaðurinn, fyrir hönd Samfylkingarinnar, enn og aftur að tala fyrir því að skattleggja landsbyggðina sérstaklega hátt.