145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

veiðigjöld og fjármögnun rannsókna í sjávarútvegi.

[15:36]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra fer hér með mikil öfugmæli og því fer fjarri að hægt sé að tala um veiðileyfagjöldin í auðugustu atvinnugrein landsins sem landsbyggðarskatt því að þau gjöld væri svo auðveldlega hægt að láta renna til byggðanna til þess að næra og styrkja samfélagsleg verkefni sem þær sjávarbyggðir þurfa mest á að halda sem urðu harðast fyrir barðinu á því kvótakerfi sem sveltir ákveðnar byggðir, eins og málum er háttað. Það er ekki rétt sem ráðherrann segir hér að fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar hafi verið tómur pappír. Hún var fullfjármögnuð, meðal annars af þeim veiðileyfagjöldum sem lögð voru á en þessi ríkisstjórn lækkaði úr 13 milljörðum árið 2012 í 5,3 milljarða á síðasta ári.

Ég spurði raunar ráðherrann almennt um tekjur af auðlindanýtingu en tók sjávarútveginn sem dæmi því að það er auðvitað borðleggjandi dæmi sem auðugasta atvinnugrein landsins. Það hefur ekki verið reglan að láta tekjur af auðlindanýtingu renna til rannsókna og nýsköpunar, (Forseti hringir.) sagði ráðherrann. Það var svolítið skemmtilegt að heyra þau ummæli (Forseti hringir.) vegna þess að það var nú einmitt það sem fyrrverandi ríkisstjórn lagði til í þeirri fjárfestingaráætlun (Forseti hringir.) sem þessi ríkisstjórn afnam strax í upphafi þessa kjörtímabils.