145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

sala á eignum sem komu til frá slitabúum föllnu bankanna.

[15:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Samþykkt voru fyrr í vor lög um meðferð svokallaðra stöðugleikaeigna sem tóku raunar umtalsverðum breytingum í meðförum efnahags- og viðskiptanefndar. Eigi að síður voru ýmis álitamál sem eftir stóðu sem mig langar að reifa hér við hæstv. ráðherra. Í yfirlýstum markmiðum laganna var talað um að við umsýslu, fullnustu og sölu eigna skyldi félagið leggja áherslu á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni. Hagkvæmni merkti þar að leita skyldi hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignina. Í nefndaráliti meiri hlutans voru þessi sjónarmið áréttuð og var lögð sérstök áhersla á að ráðherra mundi árétta í samningum við félagið að stjórnendur þess og starfsmenn viðhefðu vönduð og fagleg vinnubrögð þar sem um væri að ræða opinberar eignir, enn fremur að ef tvær leiðir stæðu til boða við ráðstöfun á eignum skyldi velja þá leið sem væri gagnsærri. Jafnræði yrði náð með því að allir sem uppfylltu málefnaleg skilyrði ættu kost á því að bjóða í einstakar eignir og að nauðsynlegar upplýsingar um söluferlið væru aðgengilegar fyrir alla mögulega bjóðendur.

Þetta er tekið úr nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar þar sem einnig var talað sérstaklega um að allt ferlið í störfum félagsins svo sem verðmat eða mat á hæfi bjóðenda mundi byggjast á hlutlægum viðmiðum. Ég lýsti raunar þeim sjónarmiðum við umræðuna. Ástæða þess að ég treysti mér ekki til að styðja þessi lög var að ég taldi vissulega ákveðin málefnaleg rök fyrir því að eðli þessara eigna væru þannig að eðlilegt væri að ramma sölu þeirra inn í einkaeignarréttarlegt umhverfi en lýsti þeim áhyggjum að það umhverfi stríddi gegn yfirlýstum markmiðum frumvarpsins um gagnsæi og jafnræði, því að þarna eru auðvitað ólíkir starfshættir þegar við lítum til opinberra eigna og eigna sem eru almennt í hinu einkaeignarréttarlega umhverfi.

Það sem gert var að stofnað var félag, einkahlutafélagið Lindarhvoll ehf., sem réð síðan Landsbankann til að sjá um sölu á hlutum í skráðu félögunum Reitum, Símanum, Eimskipum og Sjóvá, en Virðing var ráðinn ráðgjafi við söluhlut Lyfju. Síðan var boðinn til sölu allur eignarhlutur ríkisins í Reitum fasteignafélagi að undangengnum samningi félagsins við Landsbankann varðandi sölu skráðra eigna í umsýslu félagsins.

Á grundvelli reglna Lindarhvols um umsýslu, fullnustu og sölu eigna þar sem segir að sala og ráðstöfun skuli eiga sér stað að undangengnu opnu tilboðsferli þar sem gætt sé gagnsæis og jafnræðis bjóðenda, sem er auðvitað í takt við það sem stóð í lögunum, fór sala fram í útboði sem var auglýst opinberlega eftir lokun markaða föstudaginn 19. ágúst síðastliðinn og rann tilboðsfrestur út klukkan hálf níu að morgni mánudags 22. ágúst 2016.

Ég velti því fyrir mér og langar að spyrja hæstv. ráðherra: Þegar um er að ræða jafn stuttan tíma og er í þessu útboðsferli sem má kalla kannski hálflokað, hentar mjög vel fyrir fagfjárfesta og til að koma eignum hratt í verð, hefðum við ekki getað dregið þann lærdóm af t.d. Borgunarmálinu að æskilegt væri að ráðast í opnara útboðsferli, því að væntanlega var þetta útboð ekki til þess fallið að fá almenning að borðinu? Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé þá hluti af stefnunni að þetta sé fyrst og fremst hugsað fyrir fagfjárfesta eða hvort ætlunin sé að almenningur komi á einhvern hátt að þessum hugsanlegum kaupum á þessum eignum.

Mig langar líka að spyrja út í það markmið sem tengist hagkvæmni, þ.e. að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignirnar, en við sölu á Reitum var markaðsverð ofan á. Útboðsgengi var það sama og skráð var í Kauphöll í lok síðustu viku þar á undan. Hefði opnara ferli við sölu á Reitum kannski skilað hærri tilboðum? Það hlýtur að vera eftir nokkru að slægjast því virði fjárfestingar í Reitum er nærri 127 milljarðar, en með útboðsgengi er markaðsvirði fyrirtækisins rétt um 61 milljarður.

Þau sjónarmið hafa verið lögð fram að eðlilegast sé að ríkið losi sig sem fyrst við þessar eignir því að það sé ekki hlutverk ríkisins að vera að standa í sölu og kaupum á slíkum eignum. Er það svo að hraðinn hafi þá meira að segja en hagkvæmnin, þ.e. að við fáum sem hæst verð fyrir eignirnar? Því að sú gagnrýni hefur svo verið sett fram að hér sé spáð hækkandi fasteignaverði sem mætti hugsanlega auka virði ríkisins í Reitum. Það má segja það hér, og ég spyr hæstv. ráðherra hvort það eigi þá að ráða stefnu ríkisins, því að hagkvæmni þar, eins og ég segi, er skilgreint hið hæsta mögulega verð. Er þá meira lagt upp úr því að losna við eignirnar á tilsettum tíma?

Mig langar því einfaldlega að spyrja hvort ráðherra telji að það ferli sem var samþykkt í lagasetningu, þ.e. hvort hann telji framkvæmd þess ferlis vera tryggt í hinum yfirlýstu markmiðum um gagnsæi í ljósi þessa stutta útboðsferlis, jafnræði í ljósi þessa stutta útboðsferlis líka og aðkomu almennings eða möguleikum almennings á að bjóða í þessar eignir, hagkvæmni í ljósi (Forseti hringir.) frestsins sem var veittur og trúverðugleika?