145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

sala á eignum sem komu til frá slitabúum föllnu bankanna.

[15:50]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að fara varlega við sölu ríkiseigna, sagan af Borgunarmálinu segir okkur það sem og sagan af einkavæðingu ríkiseigna þegar þessir tveir stjórnarflokkar sem nú sitja og verma valdastólana hafa selt ríkiseignir á fyrri tíð. Þess vegna höfum við í Samfylkingunni lagt þunga áherslu á að virtar séu skýrar leikreglur um sölu ríkiseigna.

Ég verð hins vegar að segja varðandi þá sölu sem nú er þegar hafin, og þá sérstaklega það sem hér er til umræðu, söluna á Reitum sem er skráð félag, að ég verð að taka undir með hæstv. fjármálaráðherra að erfitt er að finna aðra betri leið til þess að selja skráða eignarhluta en einfaldlega selja þá á markaði, til þessu eru almennir markaðir. Það er mikilvægt að þeir eignarhlutir fari út og allar upplýsingar liggja fyrir um væntingar fasteignaverðs og alla slíka þætti. Allir slíkir þættir eru verðlagðir inn í verð hlutabréfa á hverjum tíma á virkum mörkuðum.

Hinu hef ég miklu meiri áhyggjur af, það eru hinar óskráðu eignir sem eru inni í þessu félagi, það eru skuldabréf á félög sem ekki eru á markaði, það eru skuldabréf á sveitarfélög og ýmsa aðra slíka þætti. Þar tel ég að við eigum að senda skýr skilaboð til stjórnvalda um að fylgst verði mjög náið með því sem þar verði gert. Þar er veruleg spillingarhætta. Þar erum við með þá stöðu að stór fyrirtæki geti í sjálfu sér í dag sent erindreka á vettvang og sagt: Bíddu, megum við ekki kaupa þessi skuldabréf á okkar stóra fyrirtæki á þessu og þessu verði? Og það er enginn virkur markaður, hvorki með bréfin né bréf í félögunum sjálfum, þannig að verðmyndunin er miklu ógagnsærri og miklu meiri spillingarhætta.

Ég vill þess vegna leggja á það áherslu í lok máls míns að við pössum að gera heldur ekki úlfalda úr mýflugu og gera tortryggilega hluti sem ekkert bendir til að séu tortryggilegir, eins og sala á skráðum bréfum á almennum markaði. Hinu eigum við að vera mjög á gormunum gagnvart og það er með hvaða hættir hinar óskráðu eignir verða seldar.