145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

sala á eignum sem komu til frá slitabúum föllnu bankanna.

[15:52]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu, hún er mikilvægt. Sömuleiðis vil ég þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir svör hans og skýrsluna. Það er mjög mikilvægt, eiginlega algjört grundvallaratriði, að það ríki gagnsæi og eins lítill efi og hægt er um þessa sölu. Við erum á mjög viðkvæmum stað. Auðvitað er sala á almannaeignum og ríkiseignum alltaf viðkvæm en í kjölfar þess sem á undan er gengið, einkavæðingu bankanna, nú síðast Borgunarmálið, þá megum við ekki við því að það sé einhver losaragangur í kringum svona sölu eða ásakanir um ógagnsæi.

Ég vil taka undir með síðasta ræðumanni, hv. þm. Árna Páli Árnasyni, að þetta gildir alveg sérstaklega um óskráðar eignir og eignir þar sem getur mögulega verið efi um virði eignanna. Því er mjög mikilvægt að það verði mikið gagnsæi og leitað til óvilhallra aðila um að verðmat á slíkum eignum áður en sala fer fram. Ég vil fagna þessari umræðu. Ég fagna skýrslunni. Við lögðum á það áherslu þegar við vorum að setja lögin um þessar eignir og meðhöndlun þeirra að Alþingi yrði vel með á nótunum, að við fengjum að fylgjast vel með þessu og ferlið yrði opið og gagnsætt, og ég vil leggja mikla áherslu á að við höldum því áfram og bætum í gagnsæið ef eitthvað er.