145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

sala á eignum sem komu til frá slitabúum föllnu bankanna.

[16:04]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það vantraust sem ríkir í garð ríkisstjórnarinnar gerir að verkum að efast er um flesta ef ekki alla gjörninga sem gerðir eru í skjóli hennar, ekki síst fjármálagjörninga. Eftir hina gagnrýnisverðu og misheppnuðu sölu á Borgun eru allir á verði og tortryggnir gagnvart sölu ríkiseigna. Það er kannski ekki furða.

Ég hefði kosið að fyrirtækið Lindarhvoll hefði verið opinbert hlutafélag en ekki einkahlutafélag í eigu ríkisins. En það breytir því ekki að hægt er að hafa eftirlit með því fyrirtæki. Og áskilið er að það geri þinginu og efnahags- og viðskiptanefnd grein fyrir störfum sínum ársfjórðungslega. Fulltrúar fyrirtækisins komu á fund efnahags- og viðskiptanefndar og skýrðu frá starfsemi þess frá stofnun. Mér fannst þeir gera það mjög skilmerkilega og sé enga ástæðu til að vera tortryggin yfir vinnubrögðum þeirra hingað til að minnsta kosti. Útboð í Reitum fór fram í opnu útboði og eign ríkisins var seld á markaðsvirði eins og áskilið er, að fá markaðsverð eða hæsta verð. Þegar fyrirtæki er á markaði hlýtur markaðsverð náttúrlega að vera hæsta verð. Ég get ekki skilið það öðruvísi. Ég sé því ekkert athugavert við það.

Hins vegar er í umræðunni nokkuð að menn segi: Hverjir keyptu? Kannski er ekki eðlilegt að gefa það upp, ég skal ekkert um það segja. En ég er alveg viss um að það yrði minni tortryggni meðal okkar ef það væri gefið upp. En ég sé ekkert athugavert við starfsemi þessa fyrirtækis fram til þessa.