145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

sala á eignum sem komu til frá slitabúum föllnu bankanna.

[16:06]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég fagna þessari umræðu eins og flestir hér í dag. Það er gríðarlega mikilvægt að við ræðum það þegar á að selja eignir ríkisins. Mikið hefur verið tekið til orðsins tortryggni í dag. Skal engan undra. Það er eitt það stærsta verkefni okkar sem stjórnmálamanna í dag að eyða þeirri tortryggni sem hefur ríkt í samfélaginu allt frá hruni og jafnvel fyrr. Þegar kemur að sölu eigna ríkisins er algert skilyrði að það sé gagnsæi og opið ferli og að sjálfsögðu sé hæsta boði tekið. Hvað varðar tímasetningu hvenær á að selja, ég get ekki metið það. Ég treysti því að það fólk sem sér um sölu eignanna meti það á hverjum tíma og taki hæstu tilboðum og velti fyrir sér hvenær best sé að selja.

En ég get ekki komið hingað upp án þess að nefna að þegar Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn eru við völd og sala eigna ríkisins er annars vegar fer um mann léttur hrollur, ekki síst í ljósi sögunnar. Í upphafi aldarinnar voru þeir flokkar við völd og seldu bankana, eða gáfu þá réttara sagt á sínum tíma. Hver man ekki eftir sölu Landssímans, andvirðið átti að fara í að byggja nýjan þjóðarspítala og við sjáum hvernig staðan á því er í dag. Enn rífumst við um það. Þeir peningar hafa ekki skilað sér í þá vinnu.

Ég hvet alla sem að þessum málum koma til að vinna opið og gagnsætt og leggja sig fram af heiðarleika í þessu. Eins og ég nefndi áðan er lykilatriðið að eyða þeirri tortryggni sem er í samfélaginu. Hún er því miður allt of mikil. En annars vona ég að þetta gangi allt vel.