145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

sala á eignum sem komu til frá slitabúum föllnu bankanna.

[16:07]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir að hefja máls á þessu. Hér ræðum við nokkurs konar lúxusvandamál því að Framsóknarflokkurinn var eini flokkurinn sem fór með það fram fyrir kosningar 2013 að það ætti að ná til baka einhverju af eigum föllnu bankanna og leggja fram stöðugleikaframlag þar af leiðandi. Það var gert mikið grín að flokknum í aðdraganda kosninganna en svo kom í ljós að þarna lágu inni á bilinu 500–800 milljarðar sem hægt var að ná til baka, eftir því hvernig það er reiknað. Hér ræðum við eignir sem ríkið fékk í sinn hlut upp á 60 milljarða í íslenskum félögum. Þess vegna er mjög gleðilegt að ræða þetta á þeim grunni.

Ég efaðist alla tíð um að þetta félag ætti að vera hýst í fjármálaráðuneytinu. Ég vildi að farin yrði sú leið sem var farin á síðasta kjörtímabili, að hýsa þetta í Seðlabankanum, eins og gert var með Hildu þá. Þáverandi ríkisstjórn tók þá ákvörðun að hýsa mikið eignasafn þar. En menn guldu varhuga við því vegna þess að Seðlabanki hefur allt annað hlutverk en að halda utan um eigur ríkisins. Þetta varð niðurstaðan í þinginu og virði ég hana, sérstaklega í ljósi þess að umgjörðin sem efnahags- og viðskiptanefnd var búin til þess að fylgjast með sölu þessara eigna er mjög vönduð og fagleg og fagna ég því mjög.

Eitt sem ég verð að taka undir með öðrum þingmönnum er sá tímafaktor sem er búið að setja hérna upp, að helst eigi að vera búið að losa um allar þessar eigur fyrir áramót, sérstaklega í ljósi þess að það eru kannski sömu kaupendur. Það var verið að létta af lífeyrissjóðum varðandi gjaldeyrishöft. Nú mega þeir fara út með eina 80 milljarða og fjárfesta erlendis. Á sama tíma huga þeir jafnvel að kaupum á þessum félögum upp á 60 milljarða. Tíminn verður að leiða það í ljós. (Forseti hringir.) En ég held að það liggi ekki á að setja tímamörkin við að allar eigurnar verði seldar fyrir áramót.