145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

sala á eignum sem komu til frá slitabúum föllnu bankanna.

[16:12]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur verið. Ég held að hún sýni það fyrst og fremst að fyrirkomulagi sem hér var gengið frá þar sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd og hv. fjárlaganefnd fá vissulega upplýsingar frá Lindarhvoli eftir sölu eigna er kannski ekki nægjanlegt því að það skiptir máli að þessi umræða sé tekin fyrir opnum tjöldum, ekki síst til að uppfylla öll þau markmið sem voru sett um gagnsæi við setningu laganna. Þó að hér hafi vissulega verið bent á að fyrir liggi heimasíða með greinargerð viðkomandi fyrirtækis þá er það svo að framsetning upplýsinga ein og sér tryggir ekki gagnsæi.

Það er mikilvægt að við tökum þessa umræðu, ekki síst vegna þeirrar tortryggni sem hefur verið í samfélaginu gagnvart sölu ríkiseigna. Margir hv. þingmenn hafa vísað í Borgunarmálið þar sem Landsbankinn var einn aðalleikari og kemur líka við sögu í þessum málum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að umræðan skili sér til almennings. Hér nefndi hv. þm. Árni Páll Árnason að mikilvægara væri að hafa eftirlit með hinum óskráðu eignum og að Alþingi hefði eftirlit með hvernig það færi fram. En eins og ég segi, þessi umræða fer auðvitað alltaf fram eftir á. Það er mikilvægt, tel ég, að við metum og vegum það sem við erum að gera við hvert skref og skilum þeirri umræðu út til almennings vegna þess að þó að upplýsingarnar séu aðgengilegar er ekki endilega þar með sagt að þær séu skiljanlegar.

Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og langar að spyrja hann, og það er kannski stóra spurningin sem mér finnst standa eftir: Það er kannski eðlilegt sjónarmið að ríkið eigi ekki endilega að vera að bíða eftir einhverri tiltekinni verðþróun, en er markmiðið að ljúka sölu eignanna eins og hér var rætt þegar lögin voru sett? Telur hæstv. ráðherra að bókfært virði þessara eigna eins og það er sett fram í fjárlögum muni skila sér miðað við þá sölu sem þegar hefur átt sér stað og það sem er eftir? Telur hæstv. ráðherra að það verði einhverjar breytingar á því (Forseti hringir.) miðað við þær áætlanir sem hér voru gerðar í vor og það bókfærða virði sem er í fjárlögum á þessum eignum?