145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

skattafsláttur af ferðakostnaði til og frá vinnu.

831. mál
[16:27]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur fyrir hennar innlegg í umræðuna og hæstv. ráðherra Bjarna Benediktssyni fyrir svörin. Í þeim löndum sem við berum okkur oft saman við, við getum t.d. nefnt Noreg, Danmörku og Svíþjóð, er ákveðið afsláttarkerfi fyrir fólk sem þarf að fara langar leiðir til og frá vinnu þar sem búið er að skilgreina atvinnusvæði. Ég skil ekki ef það er of flókið í framkvæmd fyrir okkur ef það gengur í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við.

Fjöldi fólks bara á því svæði sem ég bý á, þ.e. á Vesturlandi, á Akranesi og í nágrannasveitarfélögunum, sækir vinnu í Reykjavík. Nýjustu tölur sýna að á hverjum degi fara um tvö þúsund bílar fram og til baka allt í allt til og frá Akranesi og nágrannasveitarfélögunum til Reykjavíkur. Margir hafa tjáð mér að þeir fái engar greiðslur á móti frá vinnuveitanda, þeir séu hjá þannig fyrirtækjum sem taki ekki þátt í ferðakostnaði þannig að þeir beri sjálfir þungan kostnað af ferðunum. Ég hef jafnframt heyrt af því að á svæðum þar sem fólk þarf mikið að keyra til og frá vinnu um langan veg að fólk gefist upp á ferðalögum og flytji jafnvel í burtu. Við verðum að huga að því að styrkja þessar byggðir og þá einstaklinga sem búa á þeim atvinnusvæðum þar sem leita þarf töluvert út fyrir svæðið að vinnu, að við séum með einhverjar aðgerðir og að við styrkjum þessi svæði þannig að fólk sjái hag í því að búa í sinni heimabyggð og flytji ekki þangað sem það sækir vinnu. Ég vona svo sannarlega að við getum horft til Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar þar sem þetta fyrirkomulag er við lýði og skoðum hvernig fólk fer að þar og svo vona ég að við getum innleitt svipað kerfi hér.