145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

endurbætur á Vesturlandsvegi.

830. mál
[16:44]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að leyfa mér að svara þessum spurningum samhliða, en fyrirspurnin lýtur að vegabótum á stofnbraut frá höfuðborgarsvæðinu og vestur. Umferðarþungi þessa leið hefur verið mjög vaxandi, eins og við höfum rætt hér í þingsal og öllum er ljóst. Þar er að sjálfsögðu brýnt að huga að umbótum og til framtíðar. Í gildandi samgönguáætlun fyrir tímabilið 2011–2022 er gert ráð fyrir að kaflinn frá Þingvallavegi upp í Kollafjörð verði breikkaður í 2+1 veg á tímabilinu 2019–2022. Og að framkvæmdir á Kjalarnesi hefjist undir lok þess tímabils og ljúki því eftir að áætlunartímabilinu lýkur. Áfram er síðan haldið í drögum að samgönguáætlun til 12 ára sem er enn þá í undirbúningi. Í áætluninni er ekki vikið að Hvalfjarðargöngum eða Sundabraut.

Í samgönguáætlun til 2018 sem liggur fyrir þinginu er gert ráð fyrir að framkvæmdir við 2+1 veg á Kjalarnesi geti hafist árið 2018, en einnig tvöföldun vegkafla í þéttbýli Mosfellsbæjar. Eins og kunnugt er hefur Sundabraut lengi verið í undirbúningi og er á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar. Fyrir liggja fjölmargar skýrslur um verkefnið og þar á meðal frummat á Sundabraut sem PPP-verkefni. Ég hef falið hópi sérfræðinga að kanna mögulegar leiðir til að fá einkaaðila að framkvæmdinni en þannig væri hugsanlega hægt að flýta henni. Ég tek hins vegar fram að fram til þessa hefur Sundabrautin ekki verið sem framkvæmd á samgönguáætlun. En vegna umferðarþunga almennt er tímabært að Sundabrautin verði að veruleika. Hún mundi skipta verulegu máli fyrir þá sem búa að vestanverðu, fyrir utan það að miklu greiðara verður að komast til og frá höfuðborginni.

Áætlanir ríkisins verða auðvitað að endurspeglast í skipulagsáætlunum sveitarfélaga, en Reykjavíkurborg fer að sjálfsögðu með skipulagsvald vestan Sundabrautar og á Kjalarnesi en Hvalfjarðarsveit norðan Hvalfjarðarganga. Við endurskoðun aðalskipulags Reykjavíkur var haft samráð við Vegagerðina um framtíðarlegu hringvegar á Kjalarnesi, m.a. um fjölda og staðsetningu vegamóta. Í undirbúningi eru viðræður Vegagerðarinnar við umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar um deiliskipulag hringvegar og tengingar við hann á Kjalarnesi. Í þeim viðræðum er miðað við að vegurinn verði breikkaður eins og gert er ráð fyrir í samgönguáætlun. Þá munum við sjá það birtast í skipulagstillögum líka, gangi þetta eftir sem ég tel afar brýnt að verði.

Vegagerðin hefur fylgst með athugunum Spalar á þörf fyrir tvöföldun Hvalfjarðarganga. Nú fara að meðaltali sex þúsund bílar á dag um göngin en við það er miðað að göngin þarfnist tvöföldunar þegar umferðin er komin upp í um átta þúsund bíla á dag. Gera þarf ráð fyrir þrem til fjórum árum til undirbúnings og framkvæmda ef af því yrði. Það er tímabært að hefja undirbúning og mögulega koma á starfshópi til að greina valkosti og undirbúa tillögur. Hins vegar er alveg augljóst að huga þarf að vegunum sitt hvorum megin við göngin. Það er ekki nóg að ætla sér að tvöfalda jarðgöng þegar ekki er hægt að komast leiðar sinnar með greiðum hætti á vegunum sitt hvorum megin við. Mér finnst ekki síður brýnt að einbeita sér að Vesturlandsveginum.

En verkefnin sem ég hef nefnt hér eru mislangt á veg komin. Auðvitað þarf að hugsa þau heildstætt og 12 ára samgönguáætlun sem, eins og ég nefndi áðan, er núna í drögum er vettvangur til slíkrar stefnumörkunar. Ég vonast til að geta kynnt hana sem fyrst í þinginu og ekki óhugsandi að hægt verði að kynna hana áður en þing fer heim.