145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

endurbætur á Vesturlandsvegi.

830. mál
[16:50]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir svör hennar og hv. þm. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur fyrir að bregðast við í umræðunni.

Ég heyri það á máli hæstv. innanríkisráðherra að mikil vinna er í gangi. Eins og fram kom í svörum hennar eru endurbætur á Vesturlandsvegi og hlutum hans ráðgerðar í samgönguáætlun og að hægt verði að byrja í kringum 2018. Mig langar að árétta að mjög mikilvægt er, ef einhverjar forsendur eru fyrir því, að flýta þeim framkvæmdum.

Ég keyri þennan vegkafla sjálf á hverjum degi nánast og sé t.d. þegar sjúkrabílar eru í forgangsakstri, hversu erfitt er fyrir þá að komast fram úr þar sem vegurinn er oft og tíðum blindhæðir, þröngur vegur og mjóar vegaxlir. Það er ekki ásættanlegt. Það er jafnframt hættulegt að verða vitni að þessu og fyrir þá sem þurfa að lenda í slíkum aðstæðum. Það er einnig mikilvægt að skoða allar leiðir, hvernig við getum farið í endurbætur á vegum. En það verður að gæta jafnræðis. Það er óánægja. Ég væri ekki að segja satt ef ég segði að það væri ekki óánægja meðal stórs hluta íbúa norðan megin við göngin. Þeim finnst ekki vera jafnræði í því að þessi sveitarfélög norðan Hvalfjarðarganga séu einu sveitarfélögin svo nálægt höfuðborginni þar sem fólk þarf að taka þátt í gjaldtöku. Það er þá spurning, ef eingöngu verður hægt að fara í þessar aðgerðir sem einkaframkvæmd, hvernig hægt væri að vera með mótvægisaðgerðir á móti, eins og ég talaði um í (Forseti hringir.) tillögum hér að framan og í umræðum um skattafslátt vegna kostnaðar til og frá vinnu. Við þurfum að horfa á málið heildstætt.