145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

netbrotadeild lögreglunnar.

828. mál
[16:54]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Þann 16. ágúst sl. birtist frétt á vef innanríkisráðuneytisins um að tölvubrotadeild lögreglu yrði efld. Öllu heldur er þar um að ræða frétt um að drögum hafi verið skilað til innanríkisráðherra af starfshópi sem varðaði netbrotadeild. Var í þeim drögum, sem þó verður að nefna að ekki náðist full sátt um í nefndinni, lögð til skipulagsbreyting við rannsókn og saksókn á málum af því tagi og lagt til að stofnuð yrði sérstök netbrotadeild lögreglu þar sem brot gegn rétthöfum höfundaréttarvarins efnis nytu forgangs. Sömuleiðis að skylda fjarskiptafyrirtæki til að upplýsa notendur vefsvæða skráarskiptiforrita um hugsanleg lögbrot með svokölluðum „pop-up“ gluggum og að sett yrðu lög um landslénið .is og rekstraraðila landslénsins þar sem reglur yrðu settar um notkun íslenskra léna, en engar reglur gilda nú um landslénið.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hyggist fara eftir tillögum um að efla tölvubrotadeild lögreglunnar með stofnun sérstakrar netbrotadeildar þar sem brot sem varða höfundaréttarvarið efni njóti forgangs. Ef svo er, munu rannsóknir slíkra brota njóta forgangs umfram rannsóknir á t.d. dreifingu barnakláms og hrellikláms, hryðjuverkaógnunum og skipulagðri glæpastarfsemi, svo sem mansali?

Í öðru lagi: Hefur farið fram úttekt á hversu skilvirkar aðgerðir lögreglu vegna höfundaréttarbrota kunna að vera? Hafa aðrar leiðir verið kannaðar við að tryggja afkomu og standa vörð um hagsmuni rétthafa, t.d. með sérstökum gjöldum eða miðlægri efnisgátt þar sem allt íslenskt efni væri aðgengilegt gegn gjaldi?

Í þriðja lagi spyr ég: Hvaða tæknilegar aðferðir yrðu notaðar við rannsóknir?

Það er rétt að geta þess að þegar yfirvöld taka sér fyrir hendur eitthvað í þessum málaflokki, þ.e. rannsóknir á netbrotum eða einhverju sem varðar sér í lagi höfundaréttarbrot eða því um líkt, hefur í gegnum tíðina verið mikil tilhneiging til að fara út í aðgerðir sem ekki eru fullhugsaðar út frá tæknilegu sjónarmiði. Þá gerist það, óvart þori ég að fullyrða og vissulega vona ég það, að aðferðirnar hafa með sér aukaverkanir sem koma niður á réttindum borgaranna, t.d. til friðhelgi einkalífs, tjáningarfrelsis eða einhvers slíks, vegna þess að stjórn yfir internetinu er auðvitað stjórn yfir upplýsingum með nútímatækni. Það er mjög stórt og alvarlegt mál. Þess vegna er mikilvægt að við höfum í huga þegar tillögur koma fram um það hvernig eigi að framfylgja lögum á netinu, svo sem höfundalögum, að fólk sé meðvitað um hvernig eigi að ná þessum markmiðum og hvaða áhrif þær aðferðir hafa á réttindi borgaranna. Ekki er allt sem sýnist í þeim efnum. Því óska ég eftir svörum frá hæstv. ráðherra um þau.