145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

netbrotadeild lögreglunnar.

828. mál
[16:57]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu. Mér fannst umræðan aðeins komast í ógöngur þegar þetta mál var kynnt á vef ráðuneytisins. Ég tek fulla ábyrgð á því hvernig það var kynnt þar. Það hefur greinilega valdið ákveðnum misskilningi sem mér finnst mjög gott að geta leiðrétt.

Ég vil byrja á að segja að engin áform eru uppi um að stofna sérstaka netbrotadeild og enn síður er ætlunin að fara að stunda njósnir um fólk. Það er alls ekki svo. Að mínu mati er hins vegar mikilvægt að styrkja þekkingu og mannafla lögreglunnar til að vinna úr kærum vegna brota gegn höfundarétti á netinu. Það er dálítið annar hlutur að tala um það. Tæknibreytingar hafa aukið aðgengi að höfundaréttarvörðu efni á netinu sem er að mörgu leyti jákvætt, bæði fyrir neytendur og framleiðendur. Sá galli fylgir því hins vegar að mikið magn af höfundavörðu efni er í umferð á netinu án samþykkis rétthafa og án þess að þeir fái neina greiðslu fyrir. Af þessu leiðir að erfitt er að lifa af þeirri listsköpun sem framleiðsla tónlistar og kvikmynda er og ég hygg að við viljum öll njóta áfram á Íslandi. Í mínum huga er því afar mikilvægt að sporna gegn höfundaréttarbrotum almennt.

Árið 2014 var skipuð nefnd, eins og hv. þingmaður minntist á, sem hafði það hlutverk að gera úttekt á umfangi ólöglegs niðurhals á netinu og hvort íslenska lagaumgjörðin veitti nægilega vernd. Nefndin hefur ekki lokið störfum en í skýrsludrögum eru reifaðar ýmsar hugmyndir, þar á meðal um netbrotadeild. Ég ítreka að ég tel ekki þörf á að stofna slíka deild en tek fyllilega undir sjónarmið um að efla þurfi viðbúnað lögreglunnar til að bregðast við kærum er varða brot á höfundarétti eins og ég sagði áðan.

Áform mín um að efla tæknilega getu lögreglu munu ekki eingöngu nýtast við rannsókn höfundaréttarbrota, heldur mun jafnframt efla getu lögreglu til að bregðast við hvers konar brotastarfsemi á netinu, hvort sem um er að ræða dreifingu barnakláms og hrellikláms, hryðjuverkaógnir eða skipulagða glæpastarfsemi, svo sem mansal. Ég tel því ekki rétt að stilla því þannig upp að með þessum aðgerðum sé verið að ýta rannsókn á öðrum sviðum aftar í forgangsröð af því að það er í mínum huga algjörlega útilokað. Við getum ekki haft það þannig.

Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að nýlega gekk í gildi samkomulag milli ríkislögreglustjórans, lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, lögreglustjórans á Suðurnesjum og héraðssaksóknara um samvinnu á sviði tölvurannsókna og rannsókna á netglæpum. Markmið samstarfsins er að nýta núverandi mannauð og aðrar fjárfestingar löggæslunnar sem best og auka gæði rannsóknanna. Enn fremur að móta framtíðarsýn fyrir málaflokkinn byggða á þeirri reynslu sem þegar er til, reynsluna af væntanlegu samstarfi og þróuninni í málaflokknum hjá öðrum ríkjum.

Svo er spurt hvort fram hafi farið vinna við úttekt á hversu skilvirkar aðgerðir lögreglu vegna höfundaréttarbrota kunni að vera o.s.frv. Sú vinna sem áðurgreind nefnd vann og þær skýru ábendingar sem hagsmunaaðilar hafa komið fram hafa bent til þess að þörf sé á úrbótum í starfi lögreglunnar. Ég tel tillögu mína um að efla þetta vel til þess fallna að styrkja stöðu rétthafa í tengslum við kærur þeirra til lögreglu. Aðrar leiðir til að styrkja stöðu rétthafa eru til skoðunar, svo sem að skýra lagaumgjörð um lögmæti aðgangs að íslensku efni. Þær heyra hins vegar undir mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Þingið samþykkti nýlega breytingar á höfundalögum sem gera samtökum rétthafa kleift að gera samninga um nýtingu alls íslensks efnis, t.d. í miðlægri efnisgátt fyrir íslenskt efni. Þá veit ég að fleiri atriði eru til skoðunar í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Breytingar á lagaumhverfinu sem gera fólki auðveldara að nálgast efni á netinu á löglegan hátt kunna vissulega að draga úr fjölda kæra. Það þýðir hins vegar ekki að mínu mati að lögreglan þurfi ekki meiri styrk en nú er. Í því sambandi er vert að hafa í huga að almennt — ég legg áherslu á það — fer brotum á netinu fjölgandi. Við lítum þó ekki eingöngu til þessara höfundaréttarmála heldur annarra brota.

Spurt er hvaða tæknilegu aðferðir yrðu notaðar við rannsóknir. Það er rétt að ítreka að það stendur alls ekki til að fara að stunda persónunjósnir. Við gerum okkur fullkomlega grein fyrir því mikla jafnvægi sem er þarna við friðhelgi einkalífsins. Það er hins vegar von mín að það að efla tæknimenntun og bæta við stöðugildum muni leiða til þess að lögreglan verði betur í stakk búin að bregðast við kærum varðandi brot á höfundarétti með fullnægjandi hætti og efla almennt getu lögreglu til rannsókna á brotum á netinu. Meginmarkmiðið er að auka gæði lögreglurannsókna á brotum sem framin eru með aðstoð tölvu og öðrum nettengjanlegum búnaði og gera lögreglu kleift að beita bestu viðurkenndu tæknilegu aðferðum á hverjum tíma við rannsókn slíkra sakamála innan þeirra lagaheimilda sem eru til staðar.