145. löggjafarþing — 146. fundur,  5. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[17:37]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langaði til að spyrja hv. þingmann hvort hann viti hversu oft salmonella hefur fundist í eggjum í íslenskum búðarhillum, bara segja mér frá þessu. Það væri gaman að heyra það. Það væri líka gaman að heyra hann spjalla svolítið um það hvort hann telji það rangt sem dýralæknar og þeir sem standa að heilbrigðiseftirliti telja vera mikilvæga auðlind, þ.e. íslenska landbúnaðarframleiðslu. Finnst honum það vera hræðsluáróður að benda á að sýklalyf í kjöti á Evrópumörkuðum eru margföld á við það sem hér finnst? Eru þetta ekki raunsæir hlutir sem íslenskur löggjafi verður að horfa til? Er það ekki svo? Þurfum við ekki að horfa til þessa?

Finnst honum líka ekki skjóta skökku við að 330 þúsund manna markaður semji við 500 milljón manna markað um kíló á móti kílói, ekki sömu gerðar í kjöti en þetta er prinsippið? Þar sem breytingarnar geta skipt sköpum í öðru tilvikinu en mælast ekki í hinu. Þarf ekki að horfa til þessa?

Síðan aðeins um orðanotkun. Hv. þingmaður sagði að ég hefði ruglað saman ýmsum þáttum. Það gerði ég ekki. Ég tvinnaði saman ýmsa efnisþætti vegna þess að þessi mál eru að sönnu samtvinnuð. Við erum að tala heildstætt um íslenska landbúnaðarframleiðslu og eigum að horfa til allra þeirra vídda sem þar er að finna, heilnæmis matarins, verðlagsins, sjálfbærninnar og hins, hvort við erum reiðubúin að ráðast í kerfisbreytingar sem munu stuðla að því að störfin flytjist úr landi.