145. löggjafarþing — 146. fundur,  5. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[17:41]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér talaði maður sem vill fara að flytja inn kínverskar hænur okkur til matar, án þess að við fáum nokkurn tíma að sjá hvað er á boðstólum. Það er þetta sem menn eru að kvarta yfir í Bretlandi, að maturinn og uppruni hans sé ekki sýnilegur, hvaðan hann kemur, hvort kjúklingarnir koma frá Kína eða Taílandi eða hvaðan þeir eru. Úr hvernig búum þeir koma o.s.frv.

Ég tek hins vegar algerlega undir það með hv. þm. Árna Páli Árnasyni að slíkir hlutir eiga allir að vera sýnilegir og aðgengilegir. Eftirlit í íslenskri matvælaframleiðslu þarf að stóraukast. Við þurfum að laga það, þar sem pottur er brotinn, þangað eigum við að sjálfsögðu að beina sjónum okkar, hvort sem er í svínakjötsframleiðslunni, kjúklingaframleiðslunni eða annars staðar. En við verðum að láta íslenska landbúnaðarframleiðslu njóta sannmælis engu að síður. Það verðum við að gera. Við búum yfir mjög mikilvægri auðlind sem við eigum að verja og passa upp á. Það er það sem ég er að tala um. Ef mönnum finnst það vera mikil íhaldssemi þá finnst mér það ekki. Mér finnst að við eigum að vera galvösk í þessu, að standa vörð um það sem sannarlega gott er í framleiðslu okkar. Ég ítreka að við eigum að horfa til starfanna líka, hlusta á verkalýðshreyfinguna, hlusta á þá sem passa upp á störfin, og við eigum að viðurkenna það, ef satt er, með t.d. salmonellu í eggjum, að okkur hefur tekist að komast hjá því að fá það í búðirnar. Þetta er bara staðreynd. Við eigum að hlusta á dýralæknana í Keldum og annars staðar sem vara okkur við, sem benda okkur á hvað við höfum. Er það eitthvað rangt? Er það eitthvað afturhaldsmiðað? (Forseti hringir.) Nei. Þetta er framtíðin. Þetta er nefnilega framtíðin.