145. löggjafarþing — 146. fundur,  5. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[17:43]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að byrja á því að halda aðeins áfram með þá umræðu sem átti sér stað í andsvörum rétt áðan í sambandi við gæðaframleiðslu og framtíðina. Þegar kemur að landbúnaðarframleiðslu vil ég taka undir með hv. þingmönnum um að íslensk framleiðsla er almennt gæðaframleiðsla. Ég held því fram að gæðaframleiðsla eigi sér mjög góða framtíð, eigi mjög sterkan stað á markaði og þá ekkert síður að henni sé gert að keppa jafnvel við aðra vöru. Ég vil meina að það sé alls ekki rétt leið til þess að tryggja áfram gæði íslenskrar landbúnaðarframleiðslu að banna samkeppni við aðra landbúnaðarframleiðslu. Ég tel ekki að það sé besta leiðin til þess að tryggja að íslenskir neytendur hafi góðan smekk fyrir vandaðri vöru og leiti hana sérstaklega uppi ef hann er ekki með val um annað fyrir framan sig. Mig langaði bara að koma því að í beinu framhaldi af umræðunni hér á undan.

Þó að sá samningur sem hér liggur fyrir líti út fyrir að fela í sér talsvert mikla breytingu, mikla aukningu á innflutningi og útflutningi frá því sem verið hefur er mikilvægt að horfa til þess að sá innflutningur sem stefnt er að samkvæmt samningnum á landbúnaðarvörum frá Evrópusambandinu er að miklu leyti í samræmi við þann innflutning sem er nú þegar á undanþágum vegna skorts á íslenskum markaði. Það á kannski ekki við um ostana en innflutningur á kjöti á íslenskan markað á undanþágum hefur farið sívaxandi vegna þess hreinlega að íslensk landbúnaðarframleiðsla hefur ekki haft undan. Þegar kemur að innflutningnum mun sá samningur sem hér er þess vegna hafa afskaplega litla breytingu í för með sér fyrir íslenska landbúnaðarmarkaðinn eða matarmarkaðinn, nema þá helst varðandi osta.

Þá vil ég vitna til þess stórkostlega fordæmis sem við höfum þegar við opnuðum á innflutning á grænmeti til Íslands. Það var vissulega mjög stórt skref þegar galopnað var á innflutning á grænmeti til Íslands og íslensk ylrækt og íslensk grænmetisframleiðsla var sett í stórhættulega samkeppni við innflutta vöru, svo maður noti orðalag sem viðhaft hefur verið í umræðunni. Niðurstaðan af því var ekki dauði og djöfull fyrir framleiðendurna heldur þvert á móti tækifæri fyrir íslenska framleiðendur til þess að einbeita sér að gæðavöru og markaðssetja hana sérstaklega sem íslenska framleiðslu með mjög góðum árangri. Vitaskuld þýddi það ekki að sú framleiðsla færi út úr styrktarkerfi landbúnaðarins frekar en annar landbúnaður í öðrum löndum sem er alls staðar styrktur á einhvern hátt. En það sem gerðist var að framleiðslan var tekin út úr tollavernd, þ.e. henni var gefið tækifæri á að keppa um verð, gæði og uppruna við aðra vöru. Kom þá bara í ljós að íslenskir neytendur eru engir vitleysingar, þeir höfðu smekk fyrir vandaðri vöru og völdu íslenska vöru. Ég sé ekki að það sé nokkur ástæða til þess að vantreysta neytendum þegar kemur að öðrum tegundum matar, að íslenskir neytendur finni ekki mun á íslenskum og erlendum osti eða íslensku lambi og erlendu. Maður hefur nú aldeilis tekið eftir því eftir að byrjað var að flytja inn útlenskar rjúpur að íslenskir neytendur vilja varla viðurkenna að það sé sami fuglinn þegar kemur að bragðinu.

Þess vegna tel ég að það skref sem hér er tekið til að opna á innflutning á erlendri matvöru sé varfærið og í raun upphafið að því að gera íslenskum landbúnaði kleift að auka gæðin, auka sérhæfingu sína og gera meira af því að vera með sérstaka vandaða vöru. Ég tel að það muni breyta landbúnaðinum yfir í framleiðslu í sókn og að það muni bæta hann. Hann fer í virka samkeppni frá því að vera iðnaður sem því miður hefur oft verið í miklum varnarleik.

Fram kom í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar, sem talaði hér á undan, að hann væri hræddur við að ef boðið yrði upp á samkeppni í íslenskum matvörumarkaði yrði flutt hér inn ódýr matvara í samkeppni við íslenska matvöru og að fátækt fólk yrði neytt til þess að velja sér þá ódýra og lélega matvöru. Ég get tekið undir að það er vandamál í matvöruframleiðslu, framleiðslu, dreifingu og neyslu alls staðar í heiminum eftir því sem matvælaframleiðsla verður iðnvæddari og dreifðari og auðvitað sjáum við mun á annars vegar ódýrri iðnaðarvöru sem framleidd er í miklu magni og dreift, og hins vegar hágæðavöru sem er lífræn og selst dýru verði.

Ég spyr mig: Er það hlutverk okkar á Alþingi að vernda íslenska neytendur frá því að velja vitlaust? Er það okkar hlutverk að koma í veg fyrir að ljót föt séu flutt inn til landsins? Er það okkar hlutverk að banna að áfengi sé selt á Íslandi vegna þess að fyrir einhverjum er áfengi eitur? Ég segi nei, herra forseti, ég treysti íslenskum neytendum fullkomlega sem borðað hafa mat alveg frá því að þeir fæddust til þess að velja sér matvöru og tek undir með öllum sem talað hafa um að við eigum að nota tækifærið til að bæta merkingar á matvælum, bæta upprunamerkingar og gera íslenskum framleiðendum og þeim sem framleiða gæðavöru auðveldara fyrir við að merkja vöru sína í samræmi við gæði. Ég hef litlar áhyggjur af því að íslenskir neytendur séu svo vitlausir að þeir muni unnvörpum velja sér lélega vöru. Það hefur sýnt sig að íslenskir neytendur eru þvert á móti miklir smekkneytendur þegar þeir fá val.

Stundum hefur verið talað um það í þessari umræðu að samningurinn sé atlaga að matvælaöryggi Íslendinga. Mig langar aðeins til að koma inn á það vegna þess að matvælaöryggi er mikilvægt hverri þjóð, hverju landi. Mig langar aðeins að kafa í hugtakið matvælaöryggi. Hvað þýðir það? Það þýðir öruggt aðgengi að matvælum. Þá vil ég benda á að Ísland er eitthvert mesta matvælaframleiðsluland í heimi. Aðgengi okkar að matvælum er í raun og veru óendanlegt. Við framleiðum sjávarafurðir og flytjum út í risastórum stíl. Það kom líka í ljós í heimsstyrjöldunum á síðustu öld, sérstaklega í þeirri fyrri en líka í þeirri seinni, að þegar Íslendingar þurftu að semja við önnur lönd um inn- og útflutning gengu þeir samningar ekki út á innflutning á matvælum til þess að tryggja matvælaöryggi á Íslandi, þvert á móti gengu samningarnir alltaf út á að flytja út íslensk matvæli til þess að flytja inn erlenda olíu, kol eða annað slíkt vegna þess að staðreyndin er sú að þessi fámenna þjóð á þessari stóru eyju býr sennilega við meira matvælaöryggi en nokkurt annað svæði á jörðinni, alla vega í Evrópu.

Matvælaöryggi byggir nefnilega ekki á því að við höfum stöðugt og öruggt aðgengi að sykruðu jógúrti eða lambakótilettum eða einhverjum tegundum af matvælum. Matvælaöryggi gengur út á það að við höfum aðgengi að matvælum yfir höfuð og að við séum með dreifikerfi sem virkar fyrir þær. Þar hef ég engar áhyggjur af okkur. En þess utan tel ég að íslenskur landbúnaður muni styrkjast við það að komast á stærri markaði. Það er lykilatriði í þessari umræðu vegna þess að þeir sem eru skeptískir á þessa samninga, þeir sem eru skeptískir á inn- og útflutning á landbúnaðarvörum og mat, gefa sér einhvern veginn alltaf að íslenskur landbúnaður eigi undir högg að sækja í samkeppni, að íslenskur landbúnaður eigi undir högg að sækja í útflutningi, í útrás, að íslenskur landbúnaður geti ekki staðið fyllilega og náð góðu verði á erlendum mörkuðum. Þar leyfi ég mér nefnilega að vera alveg sérstakur bjartsýnismaður. Ég fagna því að hér sé stigið nokkuð stórt skref, sem mætti vissulega vera stærra, í tollfrjálsum útflutningi á íslenskum landbúnaði. Ég tel að íslenskur landbúnaður eigi þvert á móti mjög mikla möguleika, sérstaklega á sérhæfðum lúxusmarkaði í öðrum löndum. Með styrkum stoðum í útflutningi erum við í raun og veru komin með aðra stoð undir íslenska landbúnaðarframleiðslu sem þarf þá ekki lengur að byggja allt sitt á innanlandsmarkaði. Hann er vissulega sveiflukenndur, það fer eftir tískustraumum en ekki síður núorðið eftir því hversu margir útlendingar heimsækja okkur á hverjum tíma, þannig að ég fagna sérstaklega þessum samningi á útflutningsendanum vegna þess að ég tel að hann muni leiða af sér hvata fyrir íslenskan landbúnað til að herða sig og bæta sig enn frekar en ella.

Ég get heldur ekki komið inn í umræðuna án þess að ræða aðeins þau orð sem fallið hafa hjá hv. þingmönnum um íslenska verslun, og sérstaklega þeim sem talað hafa gegn þessum samningi. Gefið hefur verið í skyn að íslensk verslun sé einhvers konar almenningsóvinur, að íslensk verslun hafi illt eitt í huga þegar kemur að dreifingu matvæla og sé í því einu að pína framleiðendur niður í verði til þess að geta okrað á neytendum. Mér þykir það úr lausu lofti gripið. Mér þykja það mjög stórkarlalegar yfirlýsingar. Mér þykir ástæða til þess að vara við þeirri hugsun vegna þess að íslensk verslun er eins og öll önnur þjónusta á Íslandi, hún er til til þess að þjónusta íslenskan almenning og íslenska neytendur. Þegar íslensk verslun hefur ýtt á að fá að auka innflutning hefur það ekki síst verið til þess að auka fjölbreytni og úrval fyrir íslenska neytendur. Það hefur í afskaplega fáum ef nokkrum tilvikum orðið til þess að ýta íslenskri framleiðslu út af markaði. Ég veit ekki til þess að innflutningur á mæjónesi hafi bitnað á íslenska mæjónesgeiranum.

Fyrir helgi, í fyrri hluta þessarar umræðu, var rætt nokkuð mikið um heilbrigði og hættuna við óheilbrigðan, erlendan mat. Mig langar aðeins að koma að því að þrátt fyrir að við búum á eyju og þrátt fyrir að við höfum að miklu leyti haft nokkuð strangan verndarmúr utan um íslenska landbúnaðarframleiðslu er það nú alls ekki svo að allur matur á Íslandi sé upprunninn hér á landi og að við höfum ekki flutt inn matvöru, enda býr mikill meiri hluti mannkyns utan Íslands og neytir erlendrar matvöru. Mikill meiri hluti fólks virðist gera gert það án þess að það verði því til sérstaks heilsutjóns. Það er engin sérstök ástæða til þess að ætla að öðruvísi verði með íslenska neytendur.

Það hefur líka sýnt sig með þann innflutning sem verið hefur á matvöru frá Evrópusambandinu sem er framleidd undir sömu heilbrigðisreglum, undir sömu stöðlum og gilda hér á landi í gegnum EES-reglur og EES-samninginn, að neysla á þessum afurðum hefur alls ekki orðið mörgum Íslendingum að fjörtjóni. Íslendingar hafa líka fengið ágætisreynslu af því að smakka útlendan mat á ferðum sínum í útlöndum.

Fram kom fram hjá gestum fyrir utanríkismálanefnd að smithætta ætti ekki síður við um mannlega gesti en framleiddan mat og að flutningur fólks á milli landa, sem er sífellt að aukast, væri ekki síður áhyggjuefni.

Í lokin langar mig til þess að segja að við búum í Evrópu. Við erum hluti af EES. Þegar kemur að heilbrigðisstöðlum í neytendamálum eru þeir mjög sterkir og sennilega sterkari í Evrópu en annars staðar á hnettinum. Íslendingar, íslenski markaðurinn og íslensk framleiðsla heyra undir þetta sterka kerfi. Þessi samningur er á milli Íslands og Evrópusambandsins þannig að hann er samningur um gagnkvæman flutning á matvöru innan svæðis, í raun og veru innan sama kerfis. Þetta er ekki inn- og útflutningur frá ólíkum svæðum heldur er þetta flutningur innan svæðis markaðslega séð og gagnvart regluverki. Það skiptir miklu máli að við erum ekki að opna á tollfrjálsan innflutning við fjarlæg lönd þar sem allt aðrir staðlar gilda. Þvert á móti erum við að tryggja að innflutningur á matvörum til Íslands er frá löndum þar sem framleiðslan er vönduð og eftirlit er gott.

Auðvitað er eftirlit í Evrópusambandinu gott. Við þekkjum það svo vel sjálf og íslenskir framleiðendur í sjávarútvegi þekkja það alveg sérstaklega vel vegna þess að þessar reglur og kröfur evrópskra kaupenda á sjávarafurðum hafa gert það að verkum að íslenskir framleiðendur hafa aukið gæði framleiðslu sinnar svo stórkostlega mikið að söluvirðið, svo sem verðmæti afurðanna, hefur tvöfaldast án þess að magn hafi neitt aukist. Ég tel því að íslenskur landbúnaður eigi möguleika í þessum útflutningi ekki síður en í samkeppninni hér á landi.

Sá sem hér stendur tekur undir nefndarálit meiri hluta utanríkismálanefndar. Ég geri það vegna þess að niðurstaða nefndarálitsins er fyrst og fremst að mæla með því að samningurinn verði samþykktur þó svo að ýmislegt sé reifað sem fram kom hjá gestum og í umræðum nefndarinnar. Frumlagið í nefndarálitinu er að mæla með því að samningurinn verði samþykktur. Ég tel ekki að þetta sé endanlegur samningur. Ég hefði að mörgu leyti viljað sjá hann víðtækari, bæði fyrir hönd íslenskra neytenda og íslenskra bænda, en það er þróun sem mun eflaust verða á lengri tíma. Ég hlakka til þess að sjá þá tíma.