145. löggjafarþing — 146. fundur,  5. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[18:03]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir um margt áhugaverða ræðu. Mig langar eiginlega að byrja þetta andsvar mitt á því að spyrja hv. þingmann, þótt hv. þingmaður hafi svo sem ekkert komið inn á það í ræðu sinni, en það hefur verið talað talsvert um tengslin á milli tollasamnings við Evrópusambandið annars vegar og hins vegar búvörulaganna sem við ræddum í síðustu viku en sitt sýnist hverjum um það hversu nátengd þau tvö mál eru í umræðunni. Sjálf hef ég haldið því fram að þó svo að málin séu skyld og að sumu leyti kannski ólíkar hliðar á svipuðu máli sé ekki órjúfanlegt samhengi þar á milli, þ.e. þegar kemur að afgreiðslu málanna. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hann telji nauðsynlegt að afgreiða þessi mál saman á þessu þingi. Hins vegar verð ég að segja vegna ræðu hv. þingmanns að mér fannst túlkun hans dálítið merkileg og það voru eiginlega dylgjur um viðhorf okkar til íslensku verslunarinnar. Ég hef í það minnsta gagnrýnt að mér finnist í þessum samningi litið fyrst og fremst til verslunar- og viðskiptahagsmuna en ekki nægilega mikið horft til samfélagslegra og umhverfislegra þátta. (Forseti hringir.) Ég spyr hv. þingmann: Telur hv. þingmaðurinn að þeim þáttum séu gerð nægileg skil í umfjöllun okkar um málið?