145. löggjafarþing — 146. fundur,  5. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[18:06]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Svo ég reyni að svara þeim spurningum sem til mín er beint þá tel ég engin sérstök tengsl á milli þessa tollasamnings og búvörulaganna í afgreiðslu á þinginu. Þetta er auðvitað hvor sinn lagabálkurinn, hvor sín lögin. En þau fjalla hins vegar um sama umhverfi. Þau fjalla bæði um íslenska landbúnaðarframleiðslu og umhverfi hennar annars vegar og íslenska neytendur og umhverfi þeirra hins vegar. Málin eru því ekki óskyld. Þess utan eru atriði í búvörusamningunum sem eru beinlínis sett fram til þess að virka sem mótvægi við þessum tollasamningi, sem ég vil meina að gangi allt of langt í því að núlla út samkeppnismöguleikana sem felast í tollasamningnum.

Nei, ég hef aldrei haldið því fram að þetta tvennt ætti saman. Það breytir því ekki að ég stóð að því ásamt félögum mínum í Bjartri framtíð að vera með frávísunartillögu á búvörusamningana þar sem ég taldi þá ekki tilbúna. En ég tel fulla ástæðu til að samþykkja þessa tollasamninga strax, ekki síst til þess að hjálpa til og ýta undir útflutning, íslenskum landbúnaði til heilla eða hvað maður á að segja.

Ég held að ég verði að koma að seinni spurningunni sem beint er til mín um umhverfisvinkilinn í seinna andsvari.