145. löggjafarþing — 146. fundur,  5. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[18:08]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég tel mikilvægt að fá það fram við þessa umræðu hvernig hv. þingmaður telur tengslin vera milli þessarar þingsályktunartillögu annars vegar og hins vegar lagabálks, hvernig þeim tengslum sé háttað. Ég tek undir með hv. þingmanni, við erum í það minnsta sammála um að þessi mál þurfi ekki að afgreiða saman.

Svo ég bæti aðeins við spurningarnar til hv. þingmanns þá langar mig að spyrja út í tvennt í viðbót. Annars vegar um það sem hv. þingmaður sagði um að langflestir í útlöndum borði mat án þess að það sé þeim til heilsutjóns, ég held það hafi verið nokkurn veginn inntakið í því sem hv. þingmaður sagði. Ég held út af fyrir sig að það sé oftast rétt. Það kemur hins vegar fram að tíðni matborinna sýkinga á Íslandi er minni en í ýmsum öðrum löndum. Þetta kom m.a. fram í umsögn frá sóttvarnalækni. Telur hv. þingmaður ekki að við þurfum að taka mið af því? Það kom einnig fram fyrir hv. utanríkismálanefnd að það skorti hreinlega fjármagn til þess að hægt sé að taka sýni úr matvælum á Íslandi, þar á meðal þeim innfluttu. Telur hv. þingmaður ekki í það minnsta (Forseti hringir.) að tryggja þurfi þá fjármuni til að hægt sé að taka sýni? (Forseti hringir.) Ég ætla ekki að halda því fram að það séu sýkingar í öllum útlendum mat en það kom fram hjá sóttvarnalækni að þessi tíðni matborinna sýkinga væri hærri erlendis og þar með minni (Forseti hringir.) á Íslandi. Ég kemst víst ekki yfir meira.