145. löggjafarþing — 146. fundur,  5. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[18:54]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú gott að hv. þingmaður er að átta sig á muninum á jafnaðarstefnunni og hreinni vinstri stefnu, því að jafnaðarstefnan hefur alla tíð lagt áherslu á það að samkeppni sé besta leiðin í atvinnustarfsemi. Það er vegna þess að þá finna menn kröftum sínum viðnám og keppa í gæðum. Ég spyr hv. þingmann á móti: Telur hv. þingmaður það vont að það komi fyrirtæki eins og Arna og keppi, bjóði upp á minna sykurmagn og meiri vörugæði en einokunarfyrirtækið Mjólkursamsalan hefur talið sér sæma að bjóða okkur upp á hingað til, dragi úr óhollustu, í samkeppni og græði kannski eitthvað á því, fái markaðshlutdeild út á það, bjóði upp á nýja tegund vöru, laktósafría vöru sem ekki hefur verið boðið upp á áður — ekki fyrr en Mjólkursamsalan reyndar vissi að þær væru að koma, þá nýttu þeir tækifærið og skelltu einni lítilli línu af laktósafrírri mjólk á markaðinn áður til þess að passa að skemma fyrir litla keppinautnum? Er hv. þingmaður almennt á því að það sé vont ef samkeppni myndast á afurðastigi þannig að bændur fái hærra verð vegna þess að það er komin ný afurðastöð sem býður betra verð fyrir vöruna? Þetta er það sem samkeppni gerir. Hún eykur verðmæti og hún kemur í veg fyrir að bændur þurfi t.d. að sæta afarkostum eins og núna í verðlagningu á lambakjöti sem einmitt flokkssystir hv. þingmanns hefur gert athugasemdir við. Það er það sem samkeppnin gerir. Hún tryggir að menn þurfi ekki að sæta afarkostum eins eða fárra og þess vegna er hún svo mikilvægt.

Ég er búinn að hrekja í minni ræðu allan málflutning um að hér sé bráð lýðheilsuhætta eða heilbrigðishætta á ferðinni eða eitthvað slíkt. Það er bara yfirvarp. Eftir stendur hvort menn vilja gefa samkeppni séns, opna landið eða hvort menn eru algjörlega ákveðnir í því að vera bara í einangrunarhyggjunni sama hvað tautar og raular.