145. löggjafarþing — 146. fundur,  5. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[19:32]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að nota þetta tækifæri nú þegar hillir undir lok umræðunnar og spyrja hæstv. ráðherra í ljósi orða hennar varðandi starfshópinn sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði, hvort henni finnist það ekki skjóta skökku við að samþykkja tollasamninginn fyrst, eins og hér er lagt til, og fara síðan að skoða þau áhrif sem hann kann að hafa eða mun hafa hér á landi og fara eftir á í aðgerðirnar. Finnst hæstv. ráðherra það ekki skjóta skökku við að við skulum byrja á að skrifa undir og fara svo að skoða afleiðingarnar sem af samningnum kunna að hljótast? Í mínum huga þyrfti að gera það þveröfugt, þ.e. fyrst að greina betur áhrifin og síðan að taka afstöðu til samningsins. Það er m.a. þess vegna, og það er hluti af rökstuðningnum fyrir því að ég í mínu nefndaráliti og við í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt til að málinu verði vísað til hæstv. ríkisstjórnar og því frestað vegna þess að ekki er búið að greina áhrifin af samningnum.