145. löggjafarþing — 146. fundur,  5. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[19:36]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið en verð að viðurkenna að ég er eiginlega enn ruglaðri í því hvað það þýðir í raun og hver sé þá sýn hæstv. ráðherra á þetta því að mér fannst eins og mætti skilja svar hæstv. ráðherra sem svo að í rauninni væri vinna starfshópsins óþörf.

Ég hef áhyggjur af því að með því að fara þessa leið, þ.e. að skrifa fyrst undir, ef Alþingi fullgildir tollasamning við Evrópusambandið en fer síðan að skoða áhrifin, þýði það í rauninni að við séum að gefa hér út óútfylltan tékka þar sem við vitum ekki enn þá til hvaða mótvægisaðgerða mun mögulega þurfa að grípa. Það liggur ekkert mat fyrir á því hver tilkostnaðurinn yrði af því og þá sömuleiðis kostnaðurinn fyrir íslenska skattgreiðendur. Mér finnst ekki að bæði verði sleppt og haldið í þessu máli, annaðhvort hljótum við að líta svo á að það þurfi að fara í einhverjar mótvægisaðgerðir og ég tel nokkuð víst að svo sé að þær munu kosta eitthvað. Þess vegna hefði þurft að gera það á undan en ekki þegar búið er að skrifa undir samkomulagið.