145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Mig langar að vekja athygli á grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær eftir dr. Eric Stubbs. Hún heitir, með leyfi forseta: „Ísland myndi hagnast á öðruvísi vaxtastefnu“. Sá ágæti maður er fjármálaráðgjafi hjá Royal Bank of Canada í New York. Hann hefur oft verið hér á undanförnum árum og fylgst með íslensku efnahagslífi. Hann segir að það sé út af fyrir sig gamaldags aðferð að reyna að hafa áhrif á neyslu með vöxtum og mælir í staðinn með því að reynt sé að halda ákveðnu gengisstigi með vaxtaákvörðunum. Hann nefnir m.a. hvað Ísland sé útsett fyrir flæði fjármagns og alþjóðaviðskiptum. Það eru hlutir sem ég er búinn að margvara við á undanförnum missirum, þ.e. sú hávaxtastefna sem Seðlabanki Íslands rekur hefur orðið til þess að hingað inn hefur flætt kvikt fjármagn sem getur þegar minnst varir leitað út aftur, og þá á tímum sem koma eigendum þessa fjár vel en okkur mögulega illa.

Þessi ágæti maður bendir á að þau líkön sem nú eru notuð af stjórnendum Seðlabankans séu út af fyrir sig gamaldags, þau hafi verið notuð í 25 ár og að kominn sé tími til að fara nýjar leiðir. Ég held að það væri vel þess virði fyrir stjórnendur Seðlabanka Íslands að gaumgæfa orð þessa ágæta manns ásamt gagnrýni fleiri málsmetandi hagfræðinga sem komið hafa fram á undanförnum vikum og mánuðum og haldið fram nákvæmlega sama hlut, þ.e. að stýrivextir á Íslandi séu einfaldlega allt of háir.


Efnisorð er vísa í ræðuna