145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hvers vegna ættu skattaívilnanir bara að nýtast stórfyrirtækjum á Íslandi? Hvað með venjulegt fólk sem býr við íþyngjandi aðstæður? Alcoa hefur t.d. aldrei greitt fyrirtækjaskatt á Íslandi. Veiðileyfagjöld hafa verið lækkuð og skattar á auðmenn en ríkisstjórnin hefur bandað frá sér öllum hugmyndum sem hafa komið fram um skattaívilnanir til venjulegs fólks eins og t.d. vegna búsetu á landsbyggðinni. Ráðherrar segja að það flæki skattkerfið því að þeir vilja einfalt skattkerfi eins og klifað er á. En fyrir hvern er einfalt skattkerfi? Við hönnum flókin áhöld til þess að einfalda líf fólks. Snjallsíminn er t.d. flókið áhald sem einfaldar mjög líf fólks og kemur að góðum notum. Skattkerfið er í raun bara verkfæri og því mætti beita til að jafna aðstöðu fólks, einfalda líf þess og gera það betra því að við erum eitt samfélag og ætlum og viljum vera eitt samfélag.

Aðstöðumunur landshlutanna er staðreynd. Húshitunarkostnaður, flutningskostnaður aðfanga, ferðakostnaður vegna atvinnu og þjónustu, erfiðar samgöngur, allt eru þetta dæmi um íþyngjandi aðstæður sem við sem samfélag ættum að geta létt af fólki með grænum greiðslum, skattafslætti eða öðrum jöfnunaraðgerðum í gegnum skattkerfið til að jafna aðstöðu milli landshluta og stuðla að búsetufrelsi.

Ef það er hægt að ívilna stórfyrirtækjum og auðmönnum þá er hægt að ívilna venjulegu fólki sem lifir í þessu landi og í rauninni meiri ástæða til.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna