145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það hefur verið þokkalega friðsælt á vinnumarkaði undanfarna mánuði en það eru samt aðgerðir eða kjaraviðræður í gangi hjá ýmsum hópum eins og grunnskólakennurum. Þeir felldu nýjan samning og við komum til með að sjá hvert framhaldið verður og hvort náist fram betri kjör eða hvað verður hjá þeirri stétt. Sjómenn kolfelldu samning sem gerður var á milli Sjómannasambandsins og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi með rúmum 66% atkvæða. Nú eru menn á þeim bænum að reyna að ná einhverri niðurstöðu aftur. Við vitum ekkert hvað verður í framhaldinu ef ekki næst niðurstaða og verkfallsátök blasa hugsanlega við. Fyrir þinginu liggur tillaga sem ég tel að væri gott innlegg inn í þær deilur, þingmannatillaga um að kjarasamningsbundnir fæðispeningar sjómanna séu frádráttarbærir frá skatti eins og hjá stéttum sem vinna fjarri heimilum. Má þar nefna flugmenn og flugþjóna. Ég veit að þetta hefur komið til tals og tel ég rétt að þetta mál sem er í efnahags- og viðskiptanefnd fáist rætt. Ég tel það vera mikilvægt.

En svo er það ein stétt sem hefur kannski ekki viðsemjanda til þess að ræða um sín kjör, það eru íslenskir sauðfjárbændur sem víða hafa flaggað í hálfa stöng í dag vegna þess að verð til sauðfjárbænda frá afurðastöðvum heldur áfram að lækka. KS í Skagafirði boðaði lækkun til sinna bænda og mönnum er brugðið. Þetta er gífurleg kjaraskerðing fyrir sauðfjárbændur sem hafa það ekki (Forseti hringir.) heilt yfir gott fyrir. Svo við ættum að hugsa um þann tollasamning sem er hér til umræðu þar sem er verið að sturta inn í landið mörg hundruð tonnum af kjöti þegar þessi staða er hjá bændum okkar í landinu.


Efnisorð er vísa í ræðuna