145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mér finnst félagar mínir hafa svarað hv. þm. Árna Páli Árnasyni ágætlega. Hann beindi þeirri spurningu til þingmanna Pírata hvort við hefðum ekki einhvern tímann beðið fólk að ganga í Pírata til að kjósa okkur. Mér er ljúft að segja hv. þingmanni frá því að ég hef aldrei beðið nokkurn mann um að ganga í Pírata til að kjósa mig. Aldrei. Ég tók ekki einu sinni upp símann — aldrei — í þessu prófkjöri og bað fólk um að kjósa mig. Ég tók þá afstöðu að annaðhvort treystir fólk mér eða ekki. Það er bara þannig. Mér er ánægja að svara því á þann hátt.

Ég ætlaði að tala um eitthvað allt annað. Ég ætla aðeins að rifja upp frábæran fund sem var í morgun. Ég hvet þingmenn til þess að kynna sér það sem fór fram á þeim fundi, en það var opinn fundur með umboðsmanni Alþingis hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Mér fannst þetta með bestu fundum sem nefndin hefur átt með umboðsmanni Alþingis. Þar komu fram mjög mikilvæg atriði sem ég tel brýnt að allir þeir þingmenn sem ætla að gefa kost á sér aftur kynni sér.

Umboðsmanni Alþingis er falið mjög stórt hlutverk. Það er mjög mikilvægt að það sé sett sem fastur liður á fjárlög að umboðsmaður Alþingis geti jafnframt því að sinna skyldu sinni gagnvart borgurum landsins, þegar þeir finna tilefni til þess að benda á ágalla í kerfinu sem snýr að þeim, fengið fastan lið á fjárlögum þannig að hann geti stundað nauðsynlegar frumkvæðisrannsóknir.

Það sem mér fannst áhugavert á þessum fundi voru ábendingar hans varðandi stjórnsýsluna. Fundurinn var svo efnisríkur að ég beini þeirri einlægu ósk til annarra þingmanna að þeir kynni sér það sem þar fór fram og taki það til sín.


Efnisorð er vísa í ræðuna