145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[14:19]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisframsögu. Ég vildi hins vegar að gefnu tilefni spyrja hv. þingmann, formann nefndarinnar og framsögumann, um stöðu áheyrnarfulltrúa. Ég hef fylgst með þessum málum nokkuð lengi en ég vildi aðeins spyrja, vegna þess að um það hafa verið einhverjar meiningar, er það ekki alveg skýrt, er ekki hægt að treysta því ef þarf að setja það eitthvað sérstaklega inn að áheyrnarfulltrúar, sem mér finnst að vísu að ættu að vera fullgildir fulltrúar og finnst galli að svo sé ekki, að þeir séu með umræðu- og tillögurétt? Manni finnst það svo fullkomlega sjálfsagt, en einhverjar deilur hafa verið um það. Ég hef aldrei nokkurn tímann í nokkurri stjórn heyrt um að eitthvert vafamál sé um það. En það er ástæðan fyrir því að ég spyr að þessu vegna þess að þetta er alveg gríðarlega mikilvægt. Eru þeir með umræðu- og tillögurétt í stjórninni? Ég vil fá að spyrja að því vegna þess að ef einhver vafi er á því þá finnst mér að við þurfum að bæta þar úr. Ég segi það alveg skýrt að mér finnst að þessir aðilar, áheyrnarfulltrúar, ættu raunar að vera fullgildir stjórnarmeðlimir. Það er bara af augljósum ástæðum að þeir eru fulltrúar aðila sem hafa beinna hagsmuna að gæta og mikilvægt að rödd þeirra heyrist og á þeim sé tekið mark í stjórninni. Ég vil fá að heyra hjá hv. þingmanni hvernig þetta mál nákvæmlega stendur því það skiptir mjög miklu.