145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[14:27]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar í upphafi að fara aðeins yfir það að þótt þetta mál láti við fyrstu sýn ekki mikið yfir sér og virðist vera einhverjar stjórnkerfisbreytingar sem ættu að geta farið ljúflega í gegn þá hefur málið fengið mjög mikla yfirferð, það hefur verið mikil yfirlega yfir því í nefndinni vegna þess að það komu strax mjög miklar athugasemdir við frumvarpið sem lagt var fram í þinginu af hæstv. ráðherra. Formaður nefndarinnar, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, fór ágætlega yfir þau atriði sem við vorum að fjalla um þar og helst voru gagnrýnd. Það kemur líka vel fram í nefndarálitinu. Ég held að það sé á engan hallað þegar ég segi frá því að á vordögum, þegar þinginu var að ljúka fyrir sumarfrí, vorum við að velta því fyrir okkur í nefndinni hvað við gætum gert, vegna þess að þótt málið láti ekki mikið yfir sér þá eru þetta engu að síður margar greinar og það voru margar greinar sem fengu á sig athugasemdir. Það var mjög mikil vinna fyrir nefndina að fara í gegnum þetta og gera þær breytingar sem gera þurfti þannig að sátt næðist um þetta mál. Við fengum því hv. þingmenn Svandísi Svavarsdóttur og Vilhjálm Árnason til að fara í málið í sumar og vinna breytingartillögur með ráðuneytinu og hagsmunaaðilum og hlusta á það sem þeir sögðu og vinna með þeim breytingartillögur sem menn teldu að mundu gagnast best fyrir starfsemi þjóðgarðsins. Þetta gekk svona líka ljómandi vel að þegar við hin mættum sólbrún og sæl til vinnu eftir sumarleyfi voru þau búin að þessu og fyrir lágu þær breytingar sem við erum að fara yfir hér. Vil ég færa þeim miklar og góðar þakkir fyrir vinnu sínu að þessu máli í sumar.

Ég held að við séum komin með ágæta niðurstöðu. Þegar um svona starfsemi er að ræða er eðlilegt að farið sé í gegnum einhverjar breytingar með reglulegu millibili í ljósi reynslunnar. Það eru níu ár síðan lög um þjóðgarðinn voru samþykkt á þingi og það er eðlilegt að við förum í gegnum einhver atriði og gerum breytingar. Eins og fram kom í máli hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar var aðallega ræddur stóri vandinn. Í þessu frumvarpi eru fjölmörg atriði sem var algjör sátt um en það voru líka atriði sem orkuðu tvímælis í ljósi þess að hugmyndafræðin að baki stjórnsýslu garðsins á að vera ákveðin valddreifing og mikil og góð aðkoma heimamanna. Menn töldu að með frumvarpinu væri verið að stefna því í ákveðna hættu, þ.e. menn væru að beygja út af þeirri braut. Það kom síðan strax í ljós að það var alls ekkert ætlan ráðuneytisins eða þeirra sem höfðu unnið þessar breytingar og þess vegna fóru menn svona vasklega í það verk að gera breytingar, þannig að menn gætu verið sáttir og næðu frekar markmiðunum um valddreift stjórnfyrirkomulag garðsins.

Síðan var töluvert rætt um staðsetninguna á framkvæmdastjóranum, þ.e. hvar hann ætti að vera. Þegar við erum með garð sem snertir á svona mörgum sveitarfélögum og er svona víðfeðmur er eðlilegt að sú umræða komi upp. Það er eðlilegt að fólki finnist kannski ekki sjálfsagt að hann sé í Reykjavík. En svo kemur aftur á móti sú umræða: En er eitthvað þægilega fyrir þá sem eru fyrir sunnan garðinn að fara norður fyrir til þess að komast á skrifstofuna? Svo kemur á móti að við erum öll býsna tæknivædd í dag og staðsetning er farin að skipta minna og minna máli. Ég held þess vegna að í því öllu saman eigi menn að leitast við í framtíðinni að reyna að hafa starfsemina sem næst garðinum sjálfum og ná samkomulagi um það hvar það er. Mín vegna, af því þetta er ekki stór skrifstofa, mætti líka færa hana með reglubundnu millibili. Það kæmi líka til greina að mínu viti.

Ég kem úr stjórnmálaflokki sem hefur barist fyrir og vann að verkefninu Störf án staðsetningar. Ég held að við þurfum í auknum mæli innan stjórnsýslunnar að fara að bjóða upp á slík störf. Það er hægðarleikur í því tækniumhverfi sem við búum í í dag. Það er ekki lengur þannig að menn þurfi alltaf að vera líkamlega á staðnum heldur getur það verið í gegnum fjarfundabúnað o.s.frv. Ég hef ekki miklar áhyggjur af þessum samskiptum. Ég held að til að staðfesta þann vilja að það sé valddreifing og mikil samvinna við heimamenn skipti máli að staðsetning stjórnenda stofnunarinnar eða garðsins sé sem næst garðinum sjálfum.

Virðulegi forseti. Að því öllu sögðu er mjög mikilvægur kafli í þessu nefndaráliti, sem er lokakafli álitsins, sem fjallar um fjárframlög til þjóðgarðsins. Það er algjör lykilkafli. Við horfum á, eins og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson nefndi, alveg gríðarlega aukna ásókn í garðinn, ekki aðeins út af ferðaþjónustunni heldur hafa verið teknar þarna stórar kvikmyndir og það er ákveðið umstang sem fylgir því. Við verðum að fara að taka þessi mál öll miklu, miklu alvarlegar en gert hefur verið, þ.e. hvernig við ætlum að hleypa þessum mikla og aukna ferðamannastraumi að helstu náttúruperlum okkar og hvernig við ætlum að svara aukinni ásókn í alls kyns atvinnustarfsemi sem tengist náttúru Íslands. Hún hefur fengi mikla og góða auglýsingu út um allan heim, er helsta aðdráttarafl ferðamanna og er helsta aðdráttarafl kvikmyndageirans. Ef við pössum ekki upp á það skemmist sú vara, því að ósnert náttúra er vara fyrir okkur Íslendinga sem við höfum verið að selja og hagnast mjög mikið á og hefur komið okkur upp úr öldudalnum eftir hrun, það held ég að við getum öll verið sammála um. Þess vegna skiptir þetta svo miklu máli. Þess vegna skiptir máli að við förum í gegnum allt þetta fyrirkomulag, eins og verið er að gera hér, að skerpt sé á ákveðnum atriðum sem þurfa að vera í lagi o.s.frv. En það breytir því ekki að við getum verið með æðislega fína reglugerð eða reglur og reglugerðir um stjórnfyrirkomulag o.s.frv. og hver ábyrgð hinna og þessa sé þegar kemur að fjárreiðum og lýst því hér í salnum að við séum með áhyggjur af því að aukinn ferðamannastraumur geti farið að hafa skaðleg áhrif á náttúru Íslands og þjóðgarðinn, en síðan kemur ekkert fjármagn til að halda þessu við, svo kemur ekki nægt fjármagn til að reka þetta.

Það kemur ágætlega fram í umsögninni að auka þurfi fjármagn til rekstrar þjóðgarðsins og við þurfum að fara í innviðauppbyggingu. Það er ekki bara í Vatnajökulsþjóðgarði. Horfum á allt samgöngukerfið hér á landi. Horfum á aðra staði úti um allt land þar sem menn hafa látið undir höfuð leggjast að sinna því að byggja upp samhliða auknum ferðamannastraumi. Við höfum fest okkur í deilum um það hver á að innheimta gjald af ferðamönnunum og við höfum eytt öllum þessum árum í að takast á um hver ætli að taka það verkefni að sér. Við höfum sóað mikilvægum tíma. En það er ekki einungis gjaldtakan af ferðamönnum sem á að skila okkur peningum til uppbyggingar heldur á ríkisstjórnin að horfast í augu við að töluvert mikið af auknum tekjum í ríkissjóð kemur út af auknum ferðamannastraumi. Þess vegna ber okkur að varðveita þá tekjulind ríkisins með því að fara í innviðauppbyggingu, af því fjármagni sem kemur í gegnum ferðaþjónustuna. Það hefur ekki verið gert. Það hefur ekki verið gert í nægjanlegum mæli. Það er miður. Við erum á flugi í ferðaþjónustunni og ég er ein þeirra sem telja að við þolum alveg þennan fjölda ferðamanna og treysti því að þær mælingar séu allar í lagi svo lengi sem við tryggjum uppbyggingu. Það þýðir ekki að vera með allt vaðandi í einbreiðum brúm áfram og láta eins og hér séu aðeins 330 þúsund hræður sem fara við og við umhverfis landið sitt. Það er ekkert þannig lengur. Við fáum gesti, í fyrra voru það 1,2 milljónir og í ár er gert ráð fyrir jafnvel 1,6 milljónum. Þessir ferðamenn nota alla okkar innviði. Þeir nota innviðina á höfuðborgarsvæðinu. Þeir nota almenningssamgöngurnar. Þeir nota vegakerfið. Það er gríðarlegt álag á allt kerfið en á sama tíma situr þessi ríkisstjórn og segir, eins og um samgöngumálin: Það er ákvörðun, forgangsröðun í ríkisfjármálum, að setja ekki aukna fjármuni í samgöngur. Hvað þá að hún ætli að samþykkja einhverja samgönguáætlun, þótt það sé lögbundið.

Það eru vonbrigði með allt þetta sem ég tjái hér. Ég er ekki að reyna að finna eitthvað að hjá þessari ríkisstjórn heldur er ég að tala um þetta vegna þess að hagsmunirnir eru svo miklir. Ef við viljum veg og vanda greinarinnar sem mestan og bestan þá verðum við að koma þessum málum í lag, vegna þess að annað eru skammtímasjónarmið. Til lengri tíma litið verða þessir hlutir að fara í lag núna. Við þurfum að gera innviðauppbyggingaráætlun ef við ætlum að halda áfram að fá þessar tekjur af ferðamönnum.

Virðulegi forseti. Þá langar mig líka að nefna að í umræðunni um Vatnajökulsþjóðgarð verður maður að koma inn á þá umræðu sem orðið hefur um þjóðgarð á öllu miðhálendinu. Það hefur verið hávær krafa bæði innan úr þessum sal og frá þjóðinni að hafin verði vinna við að skilgreina hvar mörk slíks þjóðgarðs eigi að liggja. Það hafa verið gerðir skoðanakannanir. Var ekki skoðanakönnun í Morgunblaðinu, nú man ég það ekki alveg? Hún sýndi a.m.k. að 2/3 eða vel yfir 2/3 hluta landsmanna vildu fá þjóðgarð á miðhálendinu. Svo er aftur vandinn sá að við erum kannski með ólíkar hugmyndir um hvar það er eða hvar mörkin eigi að liggja. En það breytir því ekki að það er á ábyrgð þeirra stjórnvalda sem nú sitja að fara að hefja þá vinnu að skilgreina hvar mörkin eigi að liggja og ræða við okkur hin um það. Jú, jú, menn eru örugglega að skoða þau mál einhvers staðar, en það þarf að eiga víðtækt samtal til þess að sátt geti orðið um það hvar þjóðgarður á miðhálendinu eigi að vera. Ég kalla eftir því tengt þessari umræðu að svo verði, að kallað verði til þverpólitísks og faglegs samráðs um mörk nýs þjóðgarðs á miðhálendinu.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt fram þingmál um þetta. Við í Samfylkingunni höfum gert það líka og höfum ályktað um þetta á að ég held tveimur landsfundum í röð. Ég veit að Björt framtíð styður það og Píratar án efa og svo veit ég að þingmenn innan stjórnarflokkanna gera það líka. Við ættum að einhenda okkur í að skilgreina þetta.

Ég sé einmitt þverpólitískt lið þingmanna hér í hliðarsal kinka mjög ákaft kolli undir þessari ræðu minni. Ég mæli það á hliðarsölum að það er mikil spenna fyrir því að fara í slíka vinnu. Ég geri ráð fyrir því að við hendum okkur í það eftir ræðu mína.

Þetta frumvarp allt saman er til mikilla bóta. Það er til bóta fyrir starfsemi þjóðgarðsins, enda er öll nefndin á þessu máli fyrirvaralaust. Það er verið að skýra og skerpa á ákveðnum þáttum í starfseminni. Eins og kemur ágætlega fram í nefndarálitinu er ljóst að stjórnfyrirkomulag Vatnajökulsþjóðgarðs er mjög frábrugðið öðrum stofnunum og það er eðlilegt, enda er þetta fyrirbæri frábrugðið ýmsu öðru eða flestu öðru sem við rekum hér á landi í dag, það er svo sem alveg eðlilegt og ekki þarf allt að vera eins. En þess vegna er mikilvægt að við fylgjumst vel með og bregðumst við þegar það kemur þörf til að gera einhverjar aðlaganir og breytingar til að skýra og skerpa hlutverk þeirra sem þarna starfa og til að styðja við vinnu þeirra, af því að löggjöfin hér skiptir máli fyrir þjóðgarðsverðina og fyrir alla sem starfa í þjóðgarðinum, að þau séu með skýran lagagrunn undir því sem þau eru að gera. Enn og aftur vil ég hvetja til þess að þeim skýra lagagrunni fylgi síðan aukið fjármagn til starfseminnar sem allra fyrst.

Mig langar að nefna annað í lokin, sem við höfum oft rætt í nefndinni, og ekki aðeins á þessu kjörtímabili heldur líka á síðasta kjörtímabili, og ég veit að hv. þm. Svandís Svavarsdóttir hefur skoðað þau mál þar sem hún er fyrrverandi umhverfisráðherra, og það er spurningin um hvort mögulega eigi að koma á einhvers konar stjórnfyrirkomulagi fyrir alla þjóðgarða á Íslandi, að menn reyni að ná því saman. Við erum með þjóðgarða sem eru hver með sína stjórnina og eru líka með ólíkt umhverfi til að starfa í og ólík hlutverk. Ef við horfum á fjárveitingar til þjóðgarðanna er þeim líka mjög misskipt. Ég man eftir einhverjum tímabilum þar sem t.d. þjóðgarðurinn á Snæfellsnesi fékk ekki neitt. Einmitt núna þegar ferðaþjónustan er að eflast svona mikið skiptir máli að hann gleymist ekki, þegar við horfum öll á Vatnajökulsþjóðgarð og mikilvægt hlutverk hans.

Ég held þess vegna að þetta gæti verið snjallt, þótt ég ætli ekkert að úttala mig um það. Ef vinna leiðir síðan í ljós galla á því fyrirkomulagi er ég alveg til í að endurskoða hug minn. En eins og staðan er núna held ég að það gæti verið snjallt að við værum með eina stjórn yfir þessu öllu sem gæti þá forgangsraðað fjármunum sem við á Alþingi ákvæðum að ættu að fara til þjóðgarða, af því að sú stjórn hefði samkvæmt faglegri þekkingu sinni og vitneskju miklu meiri og betri yfirsýn yfir það en við hvað þarf að gera hvar og við treystum þeim þá líka fyrir því verkefni.

Virðulegi forseti. Að lokum ætla ég aftur að þakka hv. þingmönnum Vilhjálmi Árnasyni og Svandísi Svavarsdóttur fyrir að vinna þessa vinnu svona vel og ná samstöðu um málið og formanninum fyrir að setja málið í þann góða farveg. Að því sögðu lýsi ég því hér yfir að ég er á þessu máli og við í Samfylkingunni styðjum það.