145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[14:54]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Þróunin hefur á undanförnum árum verið svolítið þannig að Vatnajökulsþjóðgarður hefur fengið mjög mikla athygli. Fjármunirnir hafa verið að fara þangað, en þeir eru ekkert nægir og langt í frá. Það er farið ágætlega yfir það, ég ætla ekki að segja vel en það er reifað í nefndarálitinu að þörf er á auknum fjölda starfsmanna, fjármagni til ýmissa verkefna og innviðauppbyggingar. Við erum með mjög öflugt fólk og maður hugsar til þess að við þurfum hugsjónafólk í það verkefni að starfa í kringum þennan þjóðgarð og við erum með það. Við erum lánsöm. En við getum samt ekki gert endalausar kröfur á þessa fáu hausa og við þurfum að setja aukið fjármagn þarna inn. En þó að Vatnajökulsþjóðgarður hafi kannski fengið mestu athyglina á undanförnum árum þá hefur hann ekki fengið nóg. Á sama tíma erum við með aðra þjóðgarða. Ég tók sem dæmi áðan þjóðgarðinn á Snæfellsnesi sem er mikil perla og þangað er mikil ásókn ferðamanna með auknum ferðamannastraumi. Við höfum alls ekki sett nægilegt fjármagn þangað.

Ég hef þess vegna varpað því fram og við nokkur í þessari umræðu hvort ekki væri best fyrir garðana sjálfa, og það sama eigi við þegar þjóðgarður á miðhálendinu verður stofnaður — ég veit að svo mun verða og vona að það verði helst innan skamms — að ein stjórn verði helst sett yfir alla þessa þjóðgarða sem tæki ákvarðanir um það út frá faglegum forsendum hvert fjármagnið sem við á Alþingi setjum til þjóðgarða eigi að fara. Það gæti líka veitt okkur þá yfirsýn sem nauðsynleg er yfir rekstur allra þjóðgarðanna þannig að við gætum tekið ákvarðanir byggt á því.