145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[14:56]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka kærlega fyrir þetta svar og verð eiginlega, þrátt fyrir að ég sé í andsvörum, að vera sammála hv. þingmanni. Ég tel að það sé mjög brýnt að við pössum upp á þjóðgarðana okkar, veitum fé til þeirra og núna er þetta sérstaklega brýnt því að þetta er auðvitað ein af höfuðástæðum þess hversu vinsælt Ísland er meðal ferðamanna. Ástæðan fyrir því að ég tiltek hjarta hálendisins er að ef við berum gæfu til að verða við þeirri áskorun þá væntir maður þess að farið verði í heildræna skoðun á því hvernig við getum rekið alla þjóðgarðana okkar með sóma og miðlað þeirri þekkingu sem þegar hefur fengist, t.d. með Vatnajökulsþjóðgarði. Eðlilega þarf sá þjóðgarður mikið utanumhald, þetta er ekki bara stórfengleg náttúra heldur eru margar hættur á þessum stað, hvort sem þær eru út af náttúrunni sjálfri eða af mannavöldum.

Ég vona að þingheimur stefni í þessa átt, núna virðist vera ákveðin stemning í öllum flokkum, en það eru auðvitað að koma kosningar, fyrir því að vernda landið okkar og mikil stemning fyrir þjóðgarði í hjarta Íslands. Mig langar að heyra hvort hv. þingmaður telji, ef við setjum á fót stóran þjóðgarð á hálendinu, hvort það gæti orðið til þess að fókusinn færi meira á að afla fjármuna og þekkingar til þessara mikilvægu verkefna sem lúta að því að vernda náttúru landsins.