145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[14:59]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég ætla að leyfa mér að vera hjartanlega sammála hv. þingmanni. Þessi umræða hefur breyst svo mikið frá því bara fyrir nokkrum árum þegar menn litu svo á að vernd náttúru væri einhvern veginn í andstöðu við atvinnulíf. Núna erum við komin miklu lengra í umræðunni og hún snýst miklu frekar um það hvernig við getum verndað þetta aðdráttarafl og þá tekjulind sem íslensk náttúra er. Ef við eyðileggjum hana þá missum við þessa tekjulind frá okkur. Við getum kannski horft á þetta kalt þannig. Það eru síðan auðvitað sjónarmið að vernda náttúruna náttúrunnar vegna, en ég held að þessi aukna samstaða eða fylgisaukning við náttúruvernd sé líka af praktískum ástæðum. Við getum ekki gengið um náttúruna hvernig sem er.

Af því að hv. þingmaður nefndi þann fjölda ferðamanna sem kemur og skoðar þessar perlur þá verð ég að viðurkenna að ég hef líka breytt mjög sjónarmiðum mínum hvað varðar t.d. aðgangsstýringu að náttúruperlum. Við vorum með einhverja draumsýn fyrir kannski sex, sjö, átta árum um að það væri hægt að borga eitt gjald við hliðið í Keflavík, svo ætti fólk bara að fara frjálst um og við sæjum um að vernda náttúruna með þeim peningum. Staðan í dag er bara allt önnur. Með ferðamenn sem fara með þessu áframhaldi að slá í 2 milljónir og svo meira með þessum ofboðslega vexti þá erum við bara komin á allt annan stað. Við erum komin á þann stað að þurfa að stýra þessu miklu, miklu betur ef við ætlum ekki að lenda í vanda og skaða náttúru Íslands og þar með líka þá atvinnugrein sem á henni byggir. Við þurfum að fara í gegnum þessa umræðu. Mögulega þurfum við að spyrja okkur, og það snýst líka um öryggisatriðin: Hvernig á að ná til allra þessara ferðamanna sem fara í gegnum (Forseti hringir.) þjóðgarðana? Það þarf mögulega að gera það með því að stýra (Forseti hringir.) fólki einhvern veginn inn í þá og innan þeirra. Við þurfum að fara að ræða það fyrir alvöru.