145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[15:21]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur ræðuna og yfirferð yfir þessi mikilvægu mál sem snúa að skipan þjóðgarða, vernd og nýtingu lands. Að hluta til svaraði hv. þingmaður því sem ég hafði áhuga á að spyrja út í en ég fer þá kannski bara aðeins lengra með það. Annars vegar er viðfangsefnið að það þarf að vera í hinni daglegu rekstrarstjórn þessara svæða. Það er eitt verkefni. Síðan er verkefnið ýmiss konar stjórnsýsla sem snýr þá náttúrlega að þeim sem vilja fá leyfi til að nýta eða leyfi til einhverra athafna inni á þeim svæðum sem við viljum vernda eða taka frá fyrir tiltekna nýtingu og köllum þá þjóðgarða eða verndarsvæði. En síðan eru það ýmiss konar framkvæmdir, umsjónin með landinu, landvarslan. Það snýst einfaldlega um að þekkja svæðið, vita hvar viðkvæmir blettir eru og eftir hverju þarf að líta. Á þessu sviði höfum við náttúrlega þekkinguna á mismunandi stöðum í stjórnsýslunni. Í Umhverfisstofnun er mikil stjórnsýsluþekking. Sú stofnun er fyrst og fremst stjórnsýslustofnun nema þar sem kemur að umsjón með náttúruverndarsvæðum. Þar kemur landvarslan og slíkt inn í. Síðan höfum við þjóðgarðana þar sem er orðin töluverð reynsla af umsjón með landi. Svo höfum við stofnanir eins og Landgræðsluna og Skógræktina þar sem er mikil reynsla af því að hugsa um land og samstarfið við aðra sem hugsa um land eða hafa umsjón og yfirráð með landi. Þess vegna finnst mér svo mikilvægt að vita hvernig við getum látið þetta allt spila saman á sem skynsamlegastan hátt.