145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[15:28]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni áhugaverðar vangaveltur. Mig langar áður en ég bregst við þeim að bæta aðeins við sjónarhorni sem ég hef ekki haft hér í ræðu minni eða andsvörum, sem eru sjónarmið sem lúta að rannsóknum og þróun, þ.e. rannsóknarsamfélaginu, háskólunum o.s.frv. Ég held að það sé afar mikilvægt í nýrri og vaxandi atvinnugrein að við styðjum við rannsóknir og þróun í ferðaþjónustu en ekki síður þurfum við að styrkja grunnrannsóknir í náttúruvernd eða náttúrurannsóknir, grunnrannsóknir þar. Það vildi ég hafa sagt. Þannig að við byggjum ákvarðanir okkar á haldgóðri þekkingu.

Hv. þingmaður spyr hvort við getum séð fyrir okkur, svo ég umorði það sem hún segir og hún hristir þá höfuðið ef ég fer ekki rétt með, sameiginlegt utanumhald um verndarsvæði undir hefðbundnum formerkjum og þjóðlendur eða hvort þetta verði að vera aðskilið. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mjög spennandi áskorun að vera með sameiginlega einhvers konar umsýslustofnun — við þyrftum væntanlega að reyna að hafa eitthvert meira spennandi nafn á því — sem hefði það hlutverk að halda utan um land sem væri á snærum ríkisins, eða samfélagsins ef við viljum kalla það sem svo. Því að þarna eru oft ákveðnir gagnvegir, þarna er ákveðin skörun líka sem við sjáum oft.

Hv. þingmaður veltir líka fyrir sér aðkomu almennings og grasrótarsamtaka. Ég er alveg sammála því sem hv. þingmaður segir. Með nýjum náttúruverndarlögum var verið að reyna að auka áhrif sveitarfélaga og auka á mikilvægi vitundar heimamanna í löggjöfinni. Ég held að það sé þannig sem við getum ýtt (Forseti hringir.) undir þetta, með því að ýta bæði löggjöfinni og okkar skilningi á það að við þurfum á heimamanninum að halda.