145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[15:51]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann situr í stjórn þjóðgarðsins á Þingvöllum og mig langar að spyrja hann aðeins út í umræður sem áttu sér stað fyrr í þessari umræðu, tveimur ræðum fyrr eða svo, um það hvort ekki væri réttast að setja bara eina stjórn yfir alla þessa þjóðgarða. Þá er ég að tala um Vatnajökulsþjóðgarð, Snæfellsjökul og líka Þingvallaþjóðgarðinn. Ef menn vilja fara sér eitthvað hægar væri hægt að geyma það að setja Þingvallaþjóðgarðinn með inn en hugmyndin þar að baki er að við séum með faglega stjórn yfir þessu sem mæti út frá öryggisþáttum, innviðauppbyggingu og náttúruvernd, öllu þessu sem við þurfum að fara eftir, væri með einhverjar kríteríur og gæti þar með ráðstafað á rétta staði fé sem við mundum setja almennt inn til þjóðgarða og tryggt að allir þjóðgarðarnir væru í raun og veru á sama stað þegar að ákvarðanatöku kemur. Því miður hefði á tímabili þurft að setja töluvert mikið fjármagn á Þingvelli, miklu meira en menn fengu. Mikið álag er þar á náttúruna. Sömuleiðis hefur Snæfellsjökulsþjóðgarður orðið út undan. Maður veltir fyrir sér hvort ekki sé líka skynsamlegra gagnvart okkur sem erum hér að vinna með það að setja fjármagn í þessa þjóðgarða að við fáum betri yfirsýn yfir verkefnið í heild sinni.

Af því að hv. þingmaður þekkir þetta innan frá langar mig að vita hver hans sýn sé á málið.